„Við völdum hjólin frekar en að fara í golf“

hjón á sjötugsaldri sem hafa síðustu 15 ár verið dugleg …
hjón á sjötugsaldri sem hafa síðustu 15 ár verið dugleg að hjóla bæði hér heima og erlendis. Síðustu ár hafa þau fært sig yfir á rafmagnshjól. Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Undanfarin fimmtán ár hafa hjónin Guðrún og Hákon Farestveit ferðast nær árlega eða oftar til Þýskalands eða Mið-Evrópu í hjólaferðir þar sem þau segjast upplifa löndin, menninguna og alla litlu hlutina betur en áður þegar þau ferðuðust um á bíl. Fyrst fóru þau um á hefðbundnum reiðhjólum en hafa fært sig yfir í rafmagnshjól og fara nú samtals hér heima og erlendis yfir 2.000 km árlega á hjólunum. Þau segja hjólatúrana góða fyrir félagsskapinn auk þess að vera heilsueflandi.

„Við höfum átt hjól í góð 25 ár, en hjólaáhuginn byrjar fyrir alvöru þegar við erum laus við strákana,“ segir Hákon þegar þau eru spurð hvenær hjólaáhuginn hafi byrjað. Fyrsta hjólaferðin var árið 2006 þegar þau fóru ein saman til Þýskalands og leigðu þar hjól. „Þá byrjar þetta,“ bætir Guðrún við. Áfangastaðurinn var við vatnið Bodensee í suðurhluta Þýskalands en Hákon segir það vera einn fallegasta stað í Evrópu til að hjóla á og síðan hafa þau farið í nokkrar ferðir þangað á ný. „Þarna erum við í vikutíma á hóteli og hjólum út frá hótelinu upp á hvern einasta dag. Yfir til Austurríkis og til Sviss og innan Þýskalands.“

Síðar þetta ár fóru þau einnig í ferð til Ítalíu og hjóluðu við Gardavatnið, en Guðrún segir að það hafi ekki reynst jafn spennandi. „Það var síst að hjóla við Gardavatnið, það var ekkert sérstaklega spennandi. Við vorum að hjóla út í umferðinni og Ítalir þar voru ekkert mjög tillitsamir.“. Víða annar staðar í Evrópu séu hjólainnviðir og sérstakir hjólastígar talsvert betri og þá hafi tillitsemi spænskra ökumanna einnig verið umtalsvert betri þegar þau voru þar síðar.

Heillar að hjóla við árnar

Hákon segir að eftir gott fyrsta ár hafi þau orðið mjög áhugasöm um frekari hjólaævintýri og hann farið að leita að alvöru ferðum. Fann hann þýska ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í sérsniðnum hjólaferðum um Mið-Evrópu. Aftur varð Þýskaland fyrir valinu og nú fóru þau um 500 km á einni viku með vinahjónum sínum.

Þau áttuðu sig fljótlega á því að fjölmargar ferðir á meginlandinu byggja á því að hjóla meðfram hinum ýmsu ám sem renna um Evrópu. Hafa flestar ferðir þeirra síðan haldið í þá hefð og segir Hákon hress að þau séu að safna ám. Nefnir hann að þau hafi meðal annars hjólað ána Neckar í suðvesturhluta Þýskalands frá upptökum í Svartaskógi þangað til hún rennur í Rínarfljót. Þá hafa þau hjólað meðfram Moesel-ánni að stærstum hluta sem og stóra kafla við Dóná, bæði í Þýskalandi og Ungverjalandi. Síðar í ár ætli þau einnig að halda til Tékklands, til norðurhluta landsins og hjóla frá upptökum Elbe-árinnar. „Við erum að klára hana. Það eru einhverjir 450 km sem við eigum eftir við landamæri Tékklands og Póllands,“ segir hann.

Stærstan hluta starfsævinnar stunduðu þau Guðrún og Hákon verslunarrekstur, en í dag er Guðrún hætt störfum og Hákon grípur í akstur fyrir ferðamenn við og við. Þau segja aldurinn samt ekki hafa neitt að gera með hjólaáhugann, hann hafi kviknað fyrr, en að mjög gott sé að eiga áhugamál sem þetta sem þau geti einnig stundað með vinahjónum. „Við völdum hjólin frekar en að fara í golf,“ segir Guðrún og Hákon bætir við að það að ferðast erlendis á reiðhjóli gefi þeim alveg gríðarlega mikið. Þá segja þau þennan ferðamáta geta passað öllum hópum, hvort sem fólk vilji ferðast spart eða njóta lífsins til hins ítrasta á fínum hótelum og með góðum mat. „Það getur verið gaman að borða á góðum stöðum og vera á þægilegu hóteli, en munurinn hér er að morgnarnir byrja klukkan átta og það er farið út að hjóla,“ segir Hákon.

Stoppin ekki síður mikilvæg

Flestar ferðirnar sem þau hafa farið hefur ferðaskrifstofan skipulagt leiðirnar fyrir þau og sendir þeim auk þess sérsniðna kortabók með öllum helstu upplýsingum um áhugaverða staði, leiðarlýsingu og annað sniðugt á leiðinni. Auk þess sér ferðaskrifstofan um að panta trúss á milli gististaða. Segir Hákon að oft sé annað hjólreiðafólk á sömu hótelum og stundum á svipaðri leið. Hins vegar fari þau Guðrún, og oft vinafólk þeirra sem kemur með, bara á eigin vegum á milli hvers næturstaðar og þannig geti þau valið hvar þau vilji stoppa, hvar að borða o.s.frv. Þá segir Hákon að með þessu geti þau á auðveldari hátt ákveðið hversu langt eigi að hjóla hvern dag, en þau miði oft við 40-50 km, meðan hópferðir miði oft við aðeins lengri dagleiðir. „Við viljum hafa rúman dag til að geta stoppað og skoðað eitthvað, eða tekið lengra stopp í bænum sem við gistum,“ segir Hákon.

Til viðbótar við þessa ferðahögun hafa þau einnig tvisvar farið í hjólabátsferðir. Guðrún segir þær ferðir hafa verið mjög skemmtilegar, en þá er gist um borð í bátum sem sigla upp eða niður árnar og svo haldið af stað að morgni. Lýsir Hákon meðal annars ferð um Dóná þar sem þau hjóluðu fyrri hluta ferðarinnar í áttina til Búdapest á öðrum bakkanum. Báturinn sigldi á meðan niður ána og stoppaði um kvöldið og tók gesti um borð. Svo var haldið áfram niður ána yfir nóttina og sama upp á teningnum daginn eftir. Þegar komið var til Búdapest var hins vegar snúið við og var þá hjólað þá hluta árinnar sem sofið var á leiðinni niður ána og gist þá hluta sem áður hafði verið hjólað. Var hin bátsferðin á Moesel-ánni og segir Guðrún að æðislegt hafi verið að stoppa í öllum litu bæjunum meðfram ánni og skoða þá.

Á rafmagnshjóli frá 2012

Þegar þau höfðu hjólað í nokkur ár ákvað Hákon að kaupa sitt fyrsta rafmagnshjól. Þetta var árið 2012 og um var að ræða gjörð með mótor sem Íslendingur var að flytja inn á þeim tíma. Breytti Hákon þá gömlu Trek-hjóli sínu í rafmagnshjól, en á bögglaberanum var rafhlaðan sem var þá nokkuð stór og sett saman úr nokkrum rafhlöðum fyrir borvélar. Segir Hákon að hjólin hafi verið þung, eða eitthvað yfir 30 kíló með batteríunum, en hann valdi 250W pakka. Hægt var að fá allt að 500W pakka, en þá voru hjólin komin yfir 35 kíló. Rifjar hann upp að hjólið hafi verið með inngjöf og hægt að keyra það áfram eins og mótorhjól. Hjólið notaði Hákon aðeins hér á landi, enda erfitt að flytja út batterí fyrir hjólaferðir.

Eftir þrjú ár á þessu hjóli voru þau í hjólaferð í Tékklandi þar sem þau fóru frá Prag til Dresden. Hákon segir að þá hafi Bosch mótorar fyrir hjól verið að koma á markaðinn og hann hafi keypt slíkt hjól. Á þeim tíma hafi hann fengið það á um 100 þúsund, en sendingarkostnaður hafi reynst svipaður þar sem það þurfti að fara eftir krókaleiðum í skipaflutning þar sem rafhlöðurnar máttu ekki fara í flug. Hefur hann síðan að mestu verið á rafmagnshjóli, en Guðrún og vinkonur þeirra í hjónaferðunum héldu sig þó enn við hefðbundnu reiðhjólin.

Gott útsýni þýðir hækkun

Það breyttist fyrir nokkrum árum þegar þau og vinahjón þeirra fóru sem oftar til Bodensee. Voru þau nú á sama hóteli alla ferðina, en hótelið var talsvert ofarlega í hlíð og endaði því hver dagur á talsverðri hækkun að hótelinu. „Þegar það stendur í auglýsingunni að gott útsýni sé yfir dalinn eða vatnið getur það þýtt mikil hækkun,“ skýtur Hákon inn í og þau hlægja bæði. „Þetta var í síðasta skiptið sem við stelpurnar tókum venjuleg hjól. Strákarnir voru komnir á rafmangshjól en við vorum að þrjóskast.“ Lýsir Hákon því að þeir karlarnir hafi verið komnir á hótelið og búnir að græja sig eftir hjóladaginn þegar konurnar komu upp. „Eftir þessa brekku hugsaði ég hvort það væri ekki rétt að skella sér á rafmagn,“ segir Guðrún og ekki varð aftur snúið.

Spurð hvað heilli mest við að hjóla erlendis segja þau bæði að það hversu auðvelt sé að fara milli staða sé stórt atriði. Þannig skipti innviðir á borð við hjólastíga miklu svo hægt sé að ferðast á skemmtilegan hátt um og upplifa allt það sem ekki sést frá hraðbrautinni. „Það eru þessir staðir sem við hefðum aldrei keyrt til heldur bara framhjá. Við höfum því séð mjög mikið sem við hefðum annars misst af,“ segir Guðrún.

Hjólandi yfirtóku hraðbraut

Þá nefnir Hákon alla hefðina sem sé í Mið-Evrópu þegar komi að hjólreiðum. Segir hann ekki óalgengt að sjá heilu fjölskyldurnar á ferðalagi, hvort sem það séu dagsferðir eða lengri ferðir. Þá séu foreldrar annað hvort með börn í barnastólum eða kerrum, eða þá börnin sjálf að hjóla. Rifjast hann einnig upp tilfelli þar sem hittu foreldra þar sem annað var á sérsniðnu tvímenningshjóli með fötluðu barni þeirra. Keðjan hafði verið aftengd að aftan, en ljóst var að upplifun allra var frábær. „Það voru allir að og maður sér svo margar mismunandi útfærslur af hjólum og fólki,“ segir Hákon.

Rifjar hann einnig upp að þegar þau voru eitt sinn í Þýskalandi í Rínardalnum hafi þau óvænt verið þar laugardag í ágúst þar sem lokað er fyrir umferð ökutækja algjörlega á hraðbrautinni í dalnum báðu megin. „Það er bara hjóladagur. Þú getur hjólað frá Frankfurt alveg að landamærum Þýskalands og Hollands. Engin umferð nema hjól, línuskautar, hjólaskautar. Fólk á reiðhjólum, rafhjólum eða fjórhjólum [þar sem fólk er liggjandi á bakinu]. Ég á líka myndir af mönnum sem hjóluðu þarna á bjórvagni með dælu,“ segir Hákon. Þá hafi fólk klætt sig upp og verið á heimasmíðuðum hjólum. „Þetta var svo skemmtilegur dagur og mikil upplifun. Við duttum þarna inn fyrir algjöra tilviljun,“ segir hann og bætir við að um mikið fjölmenni hafi verið að ræða sem sýni hjólaáhugann og menninguna þarna um slóðir.

Hjóla allt árið heima

Þrátt fyrir að utanlandsferðirnar séu stór hluti af hjólamennsku hjónanna hafa þau einnig verið dugleg að hjóla hér heima. Áður en þau fengu sér rafmagnshjólin var það þó aðallega um sumar, en Guðrún segir að eftir að þau fengu sér rafmagnshjólin hjóli þau allan veturinn ef ekki sé of kalt eða færðin of slæm. Nefnir hún að viðmiðið hjá sér sé að ef það sé kaldara en -6°C sé eiginlega of kalt til að hjóla mikið. „Við förum oft að hjóla bara við tvö. Gott upp á bæði félagsskapinn og hreyfinguna,“ segir hún. „Við hjólum í heimsóknir upp í Grafarvog til krakkanna og til vinahjóna í Mosfellsbæ,“ segir Hákon. „Við höfum hjóla Reykjavík og nágrenni alveg þvers og kruss.“

Áætlar Hákon að þau farið að meðaltali um 16 km á dag þegar ekkert annað sé ákveðið hjá þeim og hann ekki að vinna. Passar það ágætlega við heimahring sem þau fara reglulega sem er einmitt 16 km.

Til viðbótar hafa þau verið að keyra með hjólin aðeins út fyrir borgina líka, hvort sem það er Grindavík, Þorlákshöfn eða Stokkseyri og hjólað þar í kring. Önnur ferð var á Nesjavelli og gist á Ion hótelinu og svo hjólað daginn eftir til baka. „Við tókum brekkuna og fórum aldrei af hjólinu,“ segir Guðrún og getur sannarlega verið stolt af því, enda brekkan mjög brött bæði fyrir vana sem óvana hjólara. „Ég var samt gjörsamlega búinn þegar við komum upp og þurfti að leggja mig við vatnstankinn til að ná andanum,“ bætir Hákon við. „Þetta er svakalega brött brekka, jafnvel þótt maður sé á rafmagni er þetta erfitt, en um leið skemmtilegt.“

Spurð um hvaða áskoranir heilli þau til að takast á við næst segir Hákon að árnar heilli enn mikið. Hins vegar sé orðið minna mál að fara lengra frá þeim nú eftir að þau eru komin með GPS-tæki fyrir nokkrum árum. Þangað til var það bara að rata eftir kortabókunum og vegvísum. „Það var töluverð vinna að hjóla eftir því,“ segir Hákon. Guðrún nefnir að hún sé spenntust fyrir annarri bátsferð og þá hafa þau einnig uppgötvað að fara til Spánar yfir vetrartímann.

Guðrún tekur einnig fram að þau aðeins komist í kynni við hópa sem ferðist saman úti á landi á Íslandi og að það heilli. „Það gæti verið gaman að fara Djúpið,“ skýtur Hákon inn í, „Eða fara frá Akureyri til Húsavíkur og færa sig svo á Mývatn.“

Vill stíga frá akvegum

Eftir allar þessar ferðir til Mið-Evrópu segir Hákon samt að eitt standi upp úr þegar hann horfi til innviðauppbyggingar fyrir hjólreiðafólk á Íslandi. „Hér á landi ef maður ætlar að hjóla eitthvað er maður alltaf með umferðaniðinn meðfram sér sem er svo lýjandi. Það eru alltaf bílar að fara framhjá manni. Það sem ég skil ekki þegar verið er að leggja hjólastíg á Íslandi er af hverju það þurfi að leggja hann við hliðina á veginum. Af hverju er þetta ekki eins og í Þýskalandi þar sem hjólastígar eru eins langt frá hraðbrautinni og hægt er.“ Nefnir hann sem dæmi hjóla- og göngustíginn sem lagður var meðfram Grindavíkurvegi. Bendir Hákon á að frá Keflavík liggi lagnir alla leið í Bláa lónið eða Grindavík og malarvegur þar við hlið. „Það er kominn vegur þarna. Það þurfti bara að malbika hann og setja þrengingu þannig að bílar kæmust þar ekki nema vegna viðhaldsvinnu.“ Segir hann að breytt hugarfar í þessa átt gæti bætt hjólaupplifun fyrir bæði íslenska hjólaunnendur sem og ferðamenn.

hjón á sjötugsaldri sem hafa síðustu 15 ár verið dugleg …
hjón á sjötugsaldri sem hafa síðustu 15 ár verið dugleg að hjóla bæði hér heima og erlendis. Síðustu ár hafa þau fært sig yfir á rafmagnshjól. Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
hjón á sjötugsaldri sem hafa síðustu 15 ár verið dugleg …
hjón á sjötugsaldri sem hafa síðustu 15 ár verið dugleg að hjóla bæði hér heima og erlendis. Síðustu ár hafa þau fært sig yfir á rafmagnshjól. Merking: Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert