Stéttarfélögin Foss og Báran fordæma uppsagnir hjá Árborg og framkvæmd þeirra. Þau lýsa áhyggjum sínum á því að uppsagnirnar bitni fyrst og fremst á konum, lágtekjuhópum, þjónustuþegum og þjónustu almennt. Þau segja ímynd sveitarfélagsins hafa orðið fyrir álitshnekki.
Stéttarfélögin segja í fréttatilkynningu, sem birt er á vefnum DFS, að uppsögnum sé háttað á mismunandi vegu. Sumt starfsfólk hafi verið látið bíða í röð eftir að mæta í viðtalsherbergi, en í öðrum tilfellum hafi fulltrúar mætt inn á vinnustaði og séð um framkvæmd uppsagna, jafnvel án þess að hafa hitt viðkomandi starfsmann áður.
Stéttarfélögin segja að ekki sjái til botns um hversu margir muni missa vinnuna. Sveitarfélögin beri ákveðna skyldu gagnvart íbúum og samfélaginu.
„Þetta er kunnuglegt stef hjá Sveitarfélaginu Árborg því ekki er langt síðan að uppsagnir á ræstingafólki áttu að hagræða verulega í rekstri,“ segir í tilkynningunni.
„Því miður virðast gömul sannindi vera að raungerast enn og aftur, með því að segja þeim upp sem lægst hafa launin þegar spara þarf fjármuni, en hlífa þeim sem hæstu launin hafa.“
Þau harma að uppsagnirnar bitni fyrst og fremst á konum, lágtekjuhópum og þjónustuþegum. Öryrkjabandalag Íslands hefur einnig lýst áhyggjum yfir því að niðurskurðurinn bitni á fötluðum.
„Það má draga þá ályktun að það sé gott að búa í Árborg á meðan þú þarft ekki á þjónustu sveitarfélagsins að halda,“ segir að lokum.