„Svoleiðis símtöl fáum við aldrei“

Fjölskylda í Reykjanesbæ verður borin út úr eigin húsnæði á …
Fjölskylda í Reykjanesbæ verður borin út úr eigin húsnæði á föstudaginn og neitar sýslumaður að tjá sig um málið við fjölmiðla. Formaður bæjarráðs segir bjöllur hafa átt að hringja fyrr. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við finnum auðvitað húsnæði fyrir þessa fjölskyldu, ef þetta mál endar eins og það lítur út fyrir er hún er komin í forgang hjá okkur og hún fer ekkert á götuna,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is um pólsku fjölskylduna sem sýslumaðurinn á Suðurnesjum hefur gert að yfirgefa húsnæði sitt á föstudag í kjölfar nauðungarsölu sem skilaði broti af verði fasteignarinnar og sýslumaður hefur þverneitað að ræða við fjölmiðla.

„Við munum tryggja þeim húsnæði, við reynum að gera það alltaf og þau verða þá bara á kostnað sveitarfélagsins,“ segir Friðjón.

En hvað finnst ykkur, stjórnendum bæjarins, um þessa afgreiðslu sýslumanns?

„Manni finnst að einhverjar bjöllur hefðu átt að hringja fyrr þannig að sveitarfélagið hefði getað gripið inn í þetta mál, við fengum bara ekkert „vink“ um þetta mál,“ svarar Friðjón, „við höfum oft verið í samskiptum við þessa fjölskyldu, við þekkjum hana vel, en á engum tímapunkti hafa þau gefið okkur „vink“ um neitt varðandi húsnæði, húsið var selt í september 2022 og þau töluðu aldrei við okkur um þetta, aldrei,“ heldur bæjarráðsformaðurinn áfram.

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir sveitarfélagið útvega fjölskyldunni húsnæði …
Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir sveitarfélagið útvega fjölskyldunni húsnæði en víða sé þó pottur brotinn í kerfinu og auðvelt fyrir sitjandi þingmenn að hrópa úlfur úlfur. Ljósmynd/Aðsend

Blaðamaður spyr hvort fjölskyldan pólska hafi hugsanlega ekki haft skilning á íslenska kerfinu, ekki áttað sig á hvað var að gerast.

„Vafalaust er eitthvað því um líkt í þessu. Við erum auðvitað með mjög mörg erfið mál þar sem samskipti eru erfið og þetta eru líka sjálfstæðir einstaklingar með sinn eigin rétt. Sveitarfélagið getur ekki gengið inn í málefni þeirra nema með þeirra samþykki, það er líka hluti af þessu, af hverju verjum við þessa fjölskyldu en ekki einhverja aðra?“ spyr Friðjón.

Hafið þið séð dæmi á borð við þetta áður, nauðungarsölumál sem sagt?

„Nei, ekki svona sérstakt, enda eru þetta oftast skuldsettar eignir sem við erum að ganga inn í og fara á uppboð,“ svarar Friðjón, „öll innheimtumál hjá sveitarfélaginu eru mjög formleg, það eru sendar tilkynningar og bréf og við bjóðum alla möguleika á að ræða málin. Við bjóðum aldrei upp húsin en ef einhver aðili [annar kröfuhafi] býður upp hús fylgja okkar kröfur að sjálfsögðu með, okkur ber skylda til að varðveita fé en við höfum aldrei frumkvæði að því,“ heldur hann áfram.

Hvað með innheimtubréf?

Friðjón segir vel hafa verið hugsað um fjölskylduna árum saman. „Við höfum hugsað vel um hana en ef þú hefur engar vísbendingar er mjög lítið sem við getum gert. Eini aðilinn sem hefur möguleika til að stoppa uppboð á þessu stigi er viðkomandi lögfræðingur á vettvangi uppboðs eða starfsmaður sýslumanns sem stöðvar uppboðið og segir hreinlega „heyrðu, fyrirgefðu, við þurfum aðeins að hugsa þetta mál,“ þú færð þá einhvern frest til að ganga frá málinu og hafa samband við bæinn en svoleiðis símtöl fáum við aldrei,“ segir Friðjón.

Hvað með innheimtubréfin, skyldu þau bara vera send út á íslensku enn þann dag í dag?

„Nei, þau eru send út á pólsku líka, ég þori auðvitað ekki að fara með það hvaða bréf þessi fjölskylda fékk en ég get alveg staðfest að þau hafa fengið allar upplýsingar mörgum sinnum og símtöl, það er alveg ljóst, þau höfðu allar upplýsingar. Þarna er verið að bjóða upp heimili þitt. Þetta er spurningin um hvenær fólk kallar á hjálp. Þú vilt ekkert fara að láta mig skipta mér af því hvað þú gerir við peningana þína þótt þú búir í sveitarfélaginu,“ segir Friðjón og beinir máli sínu því næst að þjóðkjörnum fulltrúum.

„Mér finnst að þingmenn og aðrir aðilar hefðu kannski átt að hugsa þetta aðeins fyrr og hafa lögin á þann veg að í þeim væri einhver veruleg vernd, það er voðalega auðvelt að kalla úlfur úlfur, sitjandi á þingi, enginn þeirra [þingmanna] hefur hringt í mig til dæmis, ekki einn,“ segir Friðjón ómyrkur í máli og hefur upp lokaorð sín.

„Við höfum verið mjög góð við þessa fjölskyldu og viljum vera það áfram, við viljum gera okkar besta, en því miður bárust bara ekki upplýsingar okkur um þessa stöðu,“ segir formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar að lokum.

Fíkniefni, peningaþvætti og vopnaburður

En málið á sér þó fleiri hliðar, eins og flest mál. Jakub Polkowski á sér feril í kerfinu svokallaða, refsivörslukerfinu. Undir ágústlok í fyrra hlaut hann tólf mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir fíkniefnasölu, vörslu fíkniefna og vopnaburð í máli sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum höfðaði með ákæru útgefinni í mars árið áður.

Taldist þar sannað að Polkowski hefði haft í fórum sínum í sölu- og dreifingarskyni tæp 68 grömm af maríjúana, tæp ellefu grömm af amfetamíni, eitt gramm af kókaíni, fimm töflur af concerta og tólf af stesolid sem lögregla lagði hald á.

Voru tilfellin þó fleiri er hald var lagt á efni hjá Polkowski, svo sem greinir í dómi héraðsdóms, en einnig var honum þar gefið að sök að hafa haft í vörslum sínum kylfu með áföstum nagla á endanum og hníf með 20 sentimetra löngu blaði og loks peningaþvætti með því að hafa geymt, eða eftir atvikum umbreytt, ávinningi að fjárhæð allt að 4.398.791 krónu í sína þágu auk dreifingar ótiltekins magns ávana- og fíkniefna.

Má því augljóslega deila um hvort Polkowski hafi eða hafi ekki haft ráð á að bjarga sér undan nauðungarsölu vegna fasteignagjalda, hita og rafmagns eða hvort honum hafi einfaldlega ekki verið kunnugt um þessi gjöld eins og hann hefur haldið fram í viðtölum síðasta sólarhringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka