Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segist undrandi á útspili Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra. Hann segir hana leita að sökudólgi í máli Jakubs Polkowski sem missti hús sitt á nauðungaruppboði.
Jakub fær að búa áfram í húsinu ásamt fjölskyldu sinni þar til honum verður fundið félagslegt húsnæði.
Sýslumaðurinn á Suðurnesjum seldi húsið langt undir markaðsverði. Hafði Jakub ekki greitt reikninga vegna heits vatns, trygginga eða fasteignagjöld í nokkurn tíma og höfðu þær skuldir safnast upp í vel á þriðju milljón.
Guðrún sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að ábyrgðin á málinu myndi fyrst og síðast liggja hjá sveitarfélaginu Reykjanesbæ.
„Mér finnst hún ekki átta sig alveg á raunveruleikanum í þessu. Við bjóðum ekki upp hús fyrir einstaklinga en fasteignagjöld eru lögvarin réttindi og fylgja með ef einhver fer alla leið með málið. Við gerum það ekki,“ segir Friðjón í samtali við mbl.is.
Hann segir að þegar að mál séu svona stödd – eins og var í máli Jakubs – sé sýslumaður eini aðilinn sem geti látið sveitarfélagið vita að stíga þurfi inn í.
„Ég skil ekki alveg hvað nýr dómsmálaráðherra er að hugsa með þessu. Ég er mjög undrandi á hennar útspili að leita að einhverjum sökudólgi í þessu máli,“ segir Friðjón.
Friðjón segir að ábyrgðin sé fyrst og fremst hjá fjölskyldunni, sem beri ábyrgð á eigin fjármálum. Það þurfi þó að vera einhver net sem grípi fjölskyldur í svona málum ef fjölskyldan sjálf kallar ekki eftir aðstoð.
„Það er þá sýslumaðurinn sem hefur bestu möguleikana að stoppa málið og láta vita,“ segir Friðjón.
„Sveitarfélag eins og við, við getum líka lagað okkar hluti. Innheimtufyrirtæki á okkar vegum eiga auðvitað að gefa okkur „vink“ í svona sérstökum aðstæðum.“