Lífríkið í Surtsey kemur alltaf á óvart

Í fyrri leiðangrinum verður m.a. gert þrívíddarkort út frá myndum …
Í fyrri leiðangrinum verður m.a. gert þrívíddarkort út frá myndum sem teknar verða af eyjunni á dróna. Ljósmynd/Náttúrufræðistofnun Íslands

Í ár verða 60 ár liðin frá eldgosinu í Surtsey og af því tilefni fer hópur vísindamanna frá Náttúrufræðistofnun Íslands í tvær leiðangursferðir dagana 14.-20. júlí.

Fyrri hópurinn fer í leiðangur þar sem áhersla er lögð á jarðfræðimælingar en í seinni leiðangrinum verður vistfræði eyjarinnar rannsökuð. Þá hafa fjölmiðlamenn frá annars vegar Ríkisútvarpinu og hins vegar frá Iceland Review fengið fararleyfi frá Umhverfisstofnun og slást því í hópinn með vistfræðingunum.

Olga Kolbrún Vilmundardóttir, leiðangursstjóri vistfræðinga, segist fagna því að fjallað verði sérstaklega um eyjuna í fjölmiðlum vegna 60 ára afmælisins.

„Ég held að öll umfjöllun sé af hinu góða. Þessi eyja er þjóðararfur okkar Íslendinga, en það er bæði mikilvægt að fólk viti af hverju hún er vernduð svona strangt og jafnframt að það geti verið stolt af okkar starfi.“

Leiðangursmenn verða níu auk landvarðar í fyrri ferðinni en sjö auk þriggja fjölmiðlamanna í seinni ferðinni. Leitað verður til Landhelgisgæslunnar um flutning leiðangursfólks með þyrlu til og frá eynni.

Hvorki vatn né salerni

Á eyjunni er rannsóknarskáli sem hýsir allt að tíu manns en þar er líka eldhúsaðstaða.

„Það er mjög fínt að fá þar smá skjól, en á Surtsey er samt ekkert salerni nema bara afmarkað svæði niðri í fjöru. Ekki er heldur neitt drykkjarvatn þannig að við þurfum að taka það með okkur, en langflestir eru tilbúnir að láta sig hafa það í nokkra daga.“

Olga segir vísindamenn frá Náttúrufræðistofnun fara út í eyju nánast árlega til að rannsaka plöntur og smádýr en fyrst og fremst sé farið þangað hvert sumar til að athuga hvort rannsóknarskálinn sé í góðu lagi eftir vetrartímann.

Eyjan myndaðist í eldgosi 1963 og er ein af úteyjum …
Eyjan myndaðist í eldgosi 1963 og er ein af úteyjum Vestmannaeyja. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Alltaf einstök upplifun

Hún segir að þó að oft fari sömu vísindamenn ár hvert, þá komi lífríkið á eyjunni þeim alltaf á óvart. „Það er alltaf einstök upplifun að koma þangað því náttúran og dýraríkið er svo ósnortið. Þetta er líka svo ólíkt öllum öðrum stöðum, það er heilmikill leiðangur að koma sér þangað og svo er náttúran bara mjög ólík því sem við þurfum að venjast annars staðar.“

Olga segir vel heppnaðan leiðangur lýsa sér þannig að allir vísindamenn nái rannsóknum sínum í hús. „Það er svo bara bónus fyrir leiðangursstjóra þegar allt er í lagi út í eyju og enn betra ef við finnum eitthvað nýtt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka