Segir samstarfið ekki hanga á bláþræði

Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins, …
Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins, segir aðspurður að ríkisstjórnarsamstarfið hangi ekki á bláþræði. Samsett mynd

Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, sem jafnframt er formaður Sjálfstæðisflokksins, segir aðspurður að ríkisstjórnarsamstarfið hangi ekki á bláþræði.

Hann segist þó taka eftir því að tími og kraftur fari í að ræða mál sem ríkisstjórnin sé ekki sérstaklega að biðja um að fari á dagskrá.

Vísar hann þar meðal annars til gagnrýni innan raða Sjálfstæðisflokksins á tíma­bundna stöðvun matvælaráðherra á veiðum langreyða og ólgu meðal stjórnarandstæðinga og úti í samfélaginu vegna málefna Lindarhvols. Greinargerð fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, var birt opinberlega í gær á vef Pírata.

„Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessu“

Segist Bjarni í samtali við mbl.is líta svo á að hinn endanlegi mælikvarði á sín störf fyrir sig sé hvernig fólkinu í landinu gengur.

„Hvernig er atvinnustigið? Hvernig þróast kaupmáttur frá einu tímabili til annars? Hvernig er aðgengi að húsnæði? Þetta eru hlutir sem skipta langmestu máli og á þessa mælikvarða hefur verið að ganga vel hjá okkur Íslendingum og betur en annars staðar. Við erum með miklu meiri hagvöxt og betra atvinnustig en nágrannalöndin svo dæmi sé tekið.“

Aðspurður um sögulega lítinn stuðning við sitjandi ríkisstjórn ef marka má skoðanakannanir segir Bjarni að ríkisstjórnin hafi haft sögulega töluvert mikinn stuðning. Sérstaklega hafi það átt við á þeim erfiðu tímum þegar heimsfaraldurinn gekk yfir.

„Það er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrir mér að stuðningur við ríkisstjórnir, sérstaklega stjórnir sem starfa lengi, sé mestur í upphafi og fari svo dvínandi eftir því sem líður á samstarfstímann. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessu á meðan ég finn að verkefni fái framgang. Það er ekki góður áttaviti fyrir stjórnmálamann að horfa á skoðanakannanir þegar hann gengur út í daginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert