Kvikan 500 metrum frá yfirborði

Staðsetning og umfang aflögunar á yfirborði (blá lína) út frá …
Staðsetning og umfang aflögunar á yfirborði (blá lína) út frá ICEYE bylgjuvíxlmyndum teknum 7.-8. júlí og staðsetning og umfang tölvulíkans af kvikuinnskotinu (rauð lína) sem veldur aflöguninni. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

Líkanreikningar sem byggðir eru á gögnum frá ICEYE SAR-gervihnettinum sýna að kvikan liggur enn grynnra en áður eða um 500 metrum undir yfirborði.

Þetta segir í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.

Eldgos á næstu klukkutímum eða dögum

„Útreikningarnir sýna að þann 8. júlí var gangurinn ekki að brjóta sér leið til norðaustur eða suðvesturs heldur er, eins og áður var búið að sjást, u.þ.b. 3 km langur og liggur á svæðinu á milli Litla Hrúts og Litla Keilis. Útreikningarnir gefa til kynna að enn streymi kvika í ganginn að neðan,“ segir í tilkynningunni. 

Þá ítrekar Veðurstofan að miðað við nýjustu mælingar og niðurstöður bendi allt til þess að kvikan færist nær yfirborði með þeim afleiðingum að eldgos hefjist á næstu klukkutímum eða dögum.

Í dag eru fimm dagar frá upphafi skjálftahrinunnar á Reykjanesskaganum en í síðasta eldgosi í Meradölum hófst eldgos einmitt fimm dögum eftir að skjálftahrina á svæðinu hófst.

Enn hægist á aflögun á svæðinu skv. GPS mælingum. Nýjustu gögn byggð á gervihnattamyndum frá ICEYE SAR dagana 7.-8. júlí sýna enn betur aflögun á svæðinu ofan kvikuinnskotsins. Sér í lagi sýna þær umtalsverða og nýja aflögun á yfirborði sem liggur í norðaustur-suðvestur stefnu rétt suðvestan Keilis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert