Skjálftavirknin færist hinum megin við Keili

Enn er mikil skjálftavirkni á Reykjanesskaga.
Enn er mikil skjálftavirkni á Reykjanesskaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skjálftavirknin á Reykjanesskaga í dag hefur verið norðaustur af Keili en áður skalf jörð nærri Fagradalsfjalli. Þetta segir náttúruvársérfræðingur Veðurstofu. 

Virknin hafi færst norðaustur og hugsanlega sé kvikuinnskotið að reyna að brjóta sér leið þangað. Þá getur á hinn bóginn verið um að ræða gikkverkun á norður-suður sprungu sem liggur austan við Keili.

Sérfræðingar Veðurstofu munu funda með almannavörnum og vísindamönnum frá Háskóla Íslands klukkan tvö í dag og verður staðan metin nánar þá.

Skjálftavirknin er nú mest norðaustan við Keili.
Skjálftavirknin er nú mest norðaustan við Keili. Kort/Veðurstofa Íslands

Fjórir skjálftar í stærra lagi í dag 

Snarpur skjálfti varð á því svæði kl. 11.23, sem mældist 3,9 að stærð. Þrír skjálftar yfir fjórum hafa gert vart við sig frá miðnætti.

„Við erum í viðbragðsstöðu,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Hún tekur fram að fundur almannavarna í dag sé reglubundinn og þar verði staðan metin sem endranær.

Gönguferðir á skjálftasvæðið ekki sniðugar

Viðbragðið er miðað við það, ekki síst hjá lögreglu á Suðurnesjum. Það sem er öðruvísi en áður er að við vitum núna meira,“ segir hún og á við að reynsla hafi unnist í eldgosunum í Fagradalsfjalli. Viðbragðsaðilar vonist til þess að kvika komi upp á svipuðum slóðum, þar sem þá væri hægt að nýta innviði sem þegar eru til staðar, til dæmis bílastæði.

Nú gæti kvikan komið upp hvar sem er á þessu svæði og fólk leggur leið sína þangað. Verður svæðinu ekki lokað?

„Það sem við höfum ákveðið er að reyna að höfða til skynsemi fólks. Lögreglan hefur völdin til þess að loka svæðum. Í samvinnu við lögregluna erum við sammála um að loka ekki svæðum heldur reyna að upplýsa fólk um að þetta eru ekki svæði til að fara í göngutúr á.“

Almannavarnir reyni þá einnig að höfða til ferðaþjónustunnar og vonist til þess að hún vinni með almannavörnum. 

Kvikan er á litlu dýpi líkt og áður hefur komið fram. Sérfræðingar virðast sammála um að tímaspursmál sé hvenær kvikan nái að brjóta sér leið gegnum jarðskorpuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert