Tíu sinnum stærra en fyrsta gosið

Jarðeðlisfræðingarnir Magnús Tumi Guðmundsson og Björn Oddsson á vettvangi við …
Jarðeðlisfræðingarnir Magnús Tumi Guðmundsson og Björn Oddsson á vettvangi við Litla-Hrút í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Eldgosið sem hófst við Litla-Hrút fyrr í dag er um tíu sinnum stærra en fyrsta gosið sem varð í Geldingadölum árið 2021. Þá er það um þrisvar til fjórum sinnum stærra en gosið sem braust út í Meradölum í ágúst á síðasta ári.

Þetta er mat Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.

Á upplýsingafundi almannavarna í kvöld sagði Magnús Tumi það ljóst að gosið þróaðist mjög mikið.

Miklu meira efni

„Það sem slær mann líka, þegar maður flýgur þarna yfir, er hversu mikill gasmökkurinn er, sem leggur frá þessu gosi,“ sagði Magnús Tumi.

Þar komi sennilega tvennt til. Annars vegar það að kvikan komi hraðar upp en áður og beri þannig með sér meira gas en síðustu ár.

Hins vegar sú staðreynd að í þessu gosi komi miklu meira efni upp á yfirborðið en í fyrri gosunum tveimur.

Minnir á Holuhraun

Bætti hann við að gosmökkurinn minnti hann á það sem hann sá þegar gaus í Holuhrauni, árið 2014. Gríðarmikil gasmengun hlaust af því gosi, sem var sem betur fer fjarri mikilli byggð.

„Ef fólk er nálægt gosstöðvunum, og þess vegna ekki mjög nálægt, þá getur það verið mjög hættulegt,“ sagði Magnús Tumi.

Enginn ætti erindi að gosstöðvunum, nema viðkomandi væri til þess búinn að verjast gasmenguninni.

„Það eru ferðamenn ekki.“

Frá gosstöðvunum við Litla-Hrút í kvöld.
Frá gosstöðvunum við Litla-Hrút í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert