Ráðleggur Hafnfirðingum að byggja ekki sunnar

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur ræddi við mbl.is um gosið við Litla-Hrút.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur ræddi við mbl.is um gosið við Litla-Hrút. Samsett mynd

„Það gæti gosið við Vellina en þá þyrftum við að flytja okkur yfir á aðra sprungurein sem menn tala um sem Trölladyngjureinina eða Krýsuvíkurreinina.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur, spurður hvort búast megi við eldgosi í grennd við Vellina í Hafnarfirði í framtíðinni ef áfram heldur að gjósa árlega.

Er þá miðað við það mynstur sem virðist vera að skapast þar sem gosvirknin færist í norðaustur frá Fagradalsfjalli og þar með nær höfuðborgarsvæðinu.

„Ég tel eiginlega engar líkur á því að gossprunga vegna þessara atburða þarna teygi sig til Reykjavíkur. Það má þó benda þeim á að vera ekki að byggja lengra í suðurátt. Það á að geyma það,“ segir Þorvaldur og beinir orðum sínum til Hafnfirðinga.

„Þú sérð það, ef þú skoðar kort af svæðinu, þá er það mjög sláandi að það eru engir gamlir gígar fyrir norðan Keili. Mér finnst það mjög ólíklegt, jafnvel þótt að gosin fari alla leið að Keili, að það fari lengra. Eldgosavirknin þyrfti þá að færa sig að Trölladyngju eða Krýsuvík. Þá gæti hún farið lengra norður fyrir.“

Myndarlegur gígur

Aðspurður segir hann líklegt að núverandi eldgos við Litla-Hrút eigi eftir að skilja eftir sig myndarlegan gíg eins og í fyrsta eldgosinu árið 2021. 

„Mín tilfinning er að þetta eigi eftir að halda áfram að breytast. Hann verður örugglega ansi myndarlegur, þessi gígur þegar yfir er staðið. Hann er orðinn ansi skemmtilega stór í augnablikinu. Ef þetta heldur svona áfram og við endum með eitt gígop og virknin stendur nægilega lengi, þá finnst mér líklegt að við endum með svipaða gígmyndun og árið 2021.“

Jarðeldar brutust út að nýju síðdegis mánudaginn 10. júlí.
Jarðeldar brutust út að nýju síðdegis mánudaginn 10. júlí. mbl.is/Árni Sæberg

Gígurinn 100 metrar að lengd

Hann segir smávægilegar breytingar hafa orðið á eldgosinu síðan í gær og að svo virðist sem að hraunflæðið sé veikara í dag.

„Það gæti verið að plata mann að gígarnir hafa hækkað eitthvað. Við vitum ekki hvað þeir eru háir núna en þeir voru fimmtán metrar í gær. Það er eðlilegt að framleiðnin detti niður og fari í jafnvægi sem helst í einhvern tíma. Það virðist vera að setja sig á einhverja lágmarks framleiðni og láti það malla.“

Hann bætir við að gígurinn sé orðinn 100 metrar að þvermáli með sex gosopum.

Spurður hvort gasmengunin sé meiri í þessu gosi miðað við síðustu tvö gos á svæðinu svarar hann því neitandi, þó að hún hafi verið töluvert meiri í upphafi.

Hann bendir á að því meiri sem kvikan er sem vellur upp því meiri sé gasmengunin. Þar sem kvikuflæðið hefur minnkað töluvert frá því á mándudaginn og líkist nú fyrri gosum hefur gasmengunin minnkað sömuleiðis.

Eins og sprungin blaðra

Hann segir kvikuflæðið nú líkjast fyrri tveim gosum á Reykjanesskaganum og tekur fram að framleiðnin hafi dvínað hratt.

„Það byrjaði aðeins meira. Það er ósköp eðlilegt því það var kvika að safnast saman í poka undir Litla-Hrút á mjög grunnu dýpi og sú kvika komst ekki upp á yfirborð. Það býr til þrýsting og þrýstingurinn í þessum poka var hærri en styrkurinn á þakinu fyrir ofan. Þegar það gerist þá rýfurðu þakið. Þetta er eins og að stinga á blöðru. Það kemur mest úr henni fyrst og svo dregur úr.“

Hann tekur fram að ekki sé hægt að segja til um hve lengi eldgosið muni standa yfir og bendir á að svo lengi sem jafn mikil kvika safnast upp undir yfirborðinu miðað við það sem kemur upp, þá haldi það áfram.

Þorvaldur segir ekki útilokað að kvika geti brotist út á …
Þorvaldur segir ekki útilokað að kvika geti brotist út á fleiri stöðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eins og að hella bjór í glas

Spurður um ábendingar frá fólki á gosstöðvunum sem lýsir því að það finni fyrir óróa í jarðveginum segir Þorvaldur að um ósköp eðlilegan gosóróa sé að ræða.

„Við getum ekki útilokað að kvika brjótist upp á öðrum stöðum en það er miklu líklegra að þetta sé gosórói frá núverandi gígum. Það eru svona stórar gasbólur sem eru að þenjast út og springa.

Það er kvika að flæða upp og í gegnum kvikuna streyma gasbólur. Þetta er eins og þegar þú hellir bjór í glas og horfir síðan á hvernig bólurnar koma upp. Þetta ferli köllum við afgösun kvikunnar og það er að búa til titring á svæðinu.“

Frábær fræðsla um eldfjallafræði

Hann segir að lokum að núverandi gosvirkni á Reykjanesskaganum sé ein besta fræðsla sem hægt sé að bjóða Íslendingum um eldfjallafræði. 

„Þetta er ekki bara gott tækifæri heldur nauðsynlegt tækifæri. Við búum á eldfjallaeyju og við þurfum að læra að lifa með þessum hlutum og draga úr áhrifunum eins og kostur er. Það er gott að fá svona gos fyrst, því það er erfitt að gera þetta með kraftmeiri gos. Þetta er upphitunin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert