Vinna þrívíddarlíkön af hraunhellum í Surtsey

Hér sjást könnuðurnir Guðni Gunnarsson og Birgir V. Óskarsson njóta …
Hér sjást könnuðurnir Guðni Gunnarsson og Birgir V. Óskarsson njóta útsýnisins úr munna hraunsásar. Ljósmynd/María Helga Guðmundsdóttir

Fjölmennur hópur vísindamanna frá Náttúrufræðistofnun Íslands og samstarfsaðilar hafa síðustu daga verið við árlega vöktun í Surtsey en 60 ár verða liðin í nóvember frá því að eyjan myndaðist eftir að neðansjávargos hófst um 18 km suðvestur af Heimaey. Átti eyjan þá eftir að stækka á þeim þremur árum sem gosið stóð yfir.

Mikilvæg vöktun

Að sögn Maríu Helgu Guðmundsdóttur, jarðfræðings á Náttúrufræðistofnun Íslands og rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík, var upplifunin að fara í fyrsta skiptið í Surtsey stórkostleg, enda um að ræða merkan stað þar sem mikilvæg vöktun á bæði lífríki og jarðfræðilegum ferlum á sér stað. 

María Helga Guðmundsdóttir og Kristján Jónasson, jarðfræðingar mæla jarðhita í …
María Helga Guðmundsdóttir og Kristján Jónasson, jarðfræðingar mæla jarðhita í sprungum. Ljósmynd/Birgir V. Óskarsson

Eyjan að minnka

Aðspurð segir hún að ein stærsta nýlundan sem var til skoðunar í ferðinni hafi verið hraunhellar á eyjunni, en meðlimir úr Hellarannsóknarfélagi Íslands voru með í för til þess að þrívíddarkortleggja þá. Tekur María fram að þrívíddarlíkön af sjálfri eyjunni hafi verið gerð með loftljósmyndum síðan árið 2019, en nú verði hægt að bæta hellunum við inn á líkanið.

„Við erum í raun alltaf að auka á þekkingu okkar, á eyjunni sjálfri sem slíkri og á þessum kerfum flutningsleiða fyrir hraunið þegar það rann. Hraunið rofnar talsvert hratt, það er mjög sprungið og sjórinn vinnur á því til lengri tíma þannig að eyjan er að minnka og hraunið smám saman að hverfa í hafið. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að eiga góð gögn um þessa hraunhella því þeir verða ekki eilífir,“ segir hún.

Fyrir neðan má sjá myndband frá Hellarannsóknarfélagi Íslands, af hraunhelli í Surtsey.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert