Hraun í lokaðri rás gæti dreifst út fyrir gossvæði

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir hraunið á gossvæðinu við Litla-Hrút ekki alfarið vera komið neðanjarðar en það streymi nú í gegnum lokað flutningskerfi að vaxtarjaðri. Það þýði að hraunið haldist heitara og geti flætt lengra, yfir stærra svæði. Þó að það sé komið í lokað kerfi núna þýði það þó ekki að það opnist ekki aftur.

„Ef það er komið í lokaða rás þá einangrast flutningskerfið mjög vel og það er náttúrlega mjög vel einangrað. Þannig tapast lítill hiti og hann er undir 0,1 gráðu á kílómetra ef það er í fullkomlega lokaðri rás. Þegar það kemur út úr flutningskerfinu á vaxtarjöðrum þar sem hraunið er að vaxa þá er það enn þá mjög heitt. Svona flutningur þýðir það að það verður auðveldara fyrir hraunið að lengjast þannig að ef þú ert með opna rás eins og við vorum með í fyrra tilfellinu, hrauntaum númer eitt, þá sérðu glóandi yfirborð og svona og þá er hraunið að tapa kannski tuttugu til vel yfir hundrað gráðum á kílómetra í hitastigi. Hitastigið lækkar, það tapar það miklum hita, kólnar niður að það verður stífara og þá heldur það aftur af útbreiðslunni og það fer ekki eins langt,“ segir Þorvaldur í samtali við mbl.is.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helst heitt eins og vatn á leið í krana

Þá segir hann hraunið virðast hafa náð að koma sér neðar og loka þaki á hrauntaumnum.  Nú flytjist það meira og minna undir skorpu sem haldi því heitu. Hann játar því að lokað kerfi sé meiri ógn við innviði en opið þar sem það geti dreifst meira.

„Þetta er eins og með heita vatnið, ef þú flytur það í einangrandi pípu frá orkuverinu síðan kemur það út um kranann hjá þér þá er það enn þá heitt  af því að það er einangruð pípa, tapar litlum hita á leiðinni. Það er nákvæmlega sama sem gerist í þessu tilfelli í hrauninu og af því það tapar litlum hita þá er það tiltölulega þunnfljótandi þegar það kemur út úr flutningskerfinu og þá á það auðveldara með að dreifa úr sér og lengja síðan flutningskerfið,“ segir Þorvaldur.

Segjum að þetta haldi áfram, hvaða áhrif getur það haft á svæðið í kring?

„Ef það fer alveg fremst niður í Merardali þá mun kvika brjótast þar út og halda áfram að lengja hraunið og þá endar með því að það nær niður á Suðurstrandarveg og síðan út í sjó. Það að vera í lokuðu flutningskerfi gerir það auðveldara fyrir hraunið að lengjast.“

Allt að 100 kílómetrum á móti 15

Þorvaldur segir þó að eins og allt annað er varðar eldgosið geti þetta breyst. Lokað kerfi geti opnast og öfugt eins og við sjáum nú.

„Já, já, það er ekkert í þessu sem er varanlegt. [...] það getur alveg opnast aftur og líka ef það kemur einhver stífla í þetta flutningskerfi og þá getur það verið aftur í opinni rás. Þá verður það þeim mun erfiðara fyrir hraunið að lengjast. [...] Ef það kólnar í flutningum stífnar það og endar með því að stöðvast.“

Hann nefir að helluhraun í lokuðum kerfum geti náð mun lengra frá gíg en þau sem opin eru.

„Þetta gerir það líka að verkum að það nær ekki eins langt í burtu frá gossvæðinu. Öll lengstu hraun Íslands eru helluhraun í lokuðu flutningskerfi og þau hafa orðið 30 upp í 100 kílómetra löng en hraun sem eru með opin flutningskerfi, lengstu hraun af þeirri gerð á Íslandi, þau eru ekki nema á milli 10 til 15 kílómetra löng. [...] Það eru bara áhrifin af þessari einangrun,“ segir Þorvaldur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert