Umhverfisstofnun hefur tilkynnt lögreglunni í Vestmannaeyjum um einstakling sem fór til Surtseyjar án tilskilins leyfis. Sigrúnu Ágústsdóttur forstjóra Umhverfisstofnunar rekur ekki minni til þess að annað eins hafi gerst.
„Þetta hefur almennt gengið vel,“ segir Sigrún en á svæðum með jafnstrangri friðlýsingu og í Surtsey verði mannfólkið að víkja fyrir náttúrunni.
Málið varðar helst 90. gr. laga um náttúruvernd, sem kveður á um sektir eða fangelsi að tveimur árum ef aðhafst er í heimildarleysi nokkuð það sem er leyfis- eða undanþáguskylt í lögunum, hvort sem brot er framið af ásetningi eða gáleysi.
Ágúst Halldórsson sigldi til Surtseyjar og birti drónamyndband af því á TikTok. Hann bar fyrir sig sjávarháska í viðtali á K100, sem hefði orðið til þess að hann strandaði á eyjunni.
Sigrún segir að almennt megi fara um friðlýst svæði en friðlýsing Surtseyjar er óvenju ströng. Um hana gildir auglýsing umhverfisráðherra og skv. 10. gr. hennar varða brot gegn henni sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, með stoð í náttúruverndarlögum.
„Leyfin sem við höfum verið að veita eru fyrir vísindamenn sem eru í rannsóknum. Það er frekar staðlað en alltaf skriflegt. Síðan eru dæmi um að fjölmiðill eða kvikmyndagerðaraðili fái að fara með vísindamönnum. Þá er farið eftir sömu reglum um búnað og annað slíkt varðandi tilhögun ferðarinnar,“ segir hún en mikilvægt er að lífríki Surtseyjar haldist ósnortið.
Í samtali við K100 sagðist Ágúst hafa verið á leið á Geirfuglasker en lent illa í straumi og metið aðstæðurnar þannig að of hættulegt væri að halda áfram á skerið. Birti hann færslu af sér á Surtsey á Instagram þar sem hann segist vera „búinn að hafa þetta markmið of lengi“.
mbl.is hafði samband við Ágúst sem kaus að tjá sig ekki frekar um málið að svo stöddu.