Hermann Nökkvi Gunnarsson
Eyjamaðurinn Ágúst Halldórsson, sem sigldi á kajak til Surtseyjar í byrjun ágústmánaðar, hefur enn ekki fengist í skýrslutöku hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sökum þess að hann er út á sjó við vinnu.
Þetta staðfestir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is.
Segir hann að skýrslutakan hefði undir hefðbundnum kringumstæðum átt sér stað fyrr en þar sem að Ágúst sé er ekki staddur á þurru landi þá sé það einfaldlega ekki hægt. Telur hann þó að skýrslutakan verði á næstunni.
Eins og mbl.is hefur áður fjallað um þá barst lögreglunni kæra frá Umhverfisstofnun vegna atviksins en stofnunin telur gjörninginn brjóta gegn 90. gr. laga um náttúruvernd, sem felur í sér refsiábyrgð vegna leyfisskyldra athafna.
Sjálfur sagði Ágúst í samtali við mbl.is í byrjun ágústmánaðar að lítið væri að frétta af málinu en að rík krafa væri af hálfu móður hans um að hann færi í ADHD-greiningu.
„Það er ekkert að frétta. Það eina sem er búið að breytast fyrir mig núna er að mamma mín heimtar að ég fari í ADHD-greiningu. Annars er ég mjög góður,“ sagði Ágúst.