Þrír karlmenn hafa verið ákærðir af embætti héraðssaksóknara í stórfelldu skattalagabroti sem tengist rekstri fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks-Sjávarafurðum ehf. á árunum 2010 til 2017.
Eigandi og framkvæmdastjóri Sæmarks er Sigurður Gísli Björnsson, en hann er ákærður fyrir að hafa komist hjá því að greiða tæpleg hálfan milljarð í skatta eftir að hafa tekið tæplega 1,1 milljarð út úr rekstri félagsins og komið fyrir í aflandsfélögum sem hann átti. Þá er hann einnig sagður hafa komist hjá því að greiða samtals yfir 100 milljónir í skatta í tengslum við rekstur Sæmarks með því að hafa vanframtalið tekjur félagsins og launagreiðslur starfsmanna upp á samtals 1,1 milljarð og þar með komist hjá því að greiða 81,8 milljónir í tryggingagjald.
Húsleit var gerð á heimili Sigurðar Gísla rétt fyrir jólin árið 2017 og voru eignir hans kyrrsettar. Hafði embætti skattrannsóknarstjóra haft mál Sigurðar til meðferðar frá því að Panama-skjölin voru birt og fjölmiðlar fjölluðu um innihald þeirra. Var nafn Sigurðar Gísla og aflandsfélagsins Freezing point corp, sem hann er eigandi og hagnaðaraðili að, áberandi í þeirri umfjöllun.
Í ákærunni núna er Sigurður í nokkrum liðum fyrir hlut sinn í málinu. Fyrst er hann ákærður vegna rangra skattaframtala Sæmarks á árunum 2010-2016, en hann er sagður hafa vanframtalið rekstrartekjur með rangfærðum afsláttarreikningum vegna vörusölu til bæði innlendra og erlendra félaga upp á samtals 138 milljónir og þannig komist hjá því að greiða tekjuskatt upp á 27,6 milljónir.
Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa skilað röngum virðisaukaskattskýrslum fyrir Sæmark á árunum 2014 til 2016 og offramtalið innskatt á grunni tilhæfulausra sölureikninga. Með því er hann talinn hafa offramtalið innskatt upp á 2,4 milljónir.
Sigurður Gísli er svo ákærður fyrir að hafa vanframtalið launagreiðslur starfsmanna við launauppgjöf á skilagreinum á árunum 2011 til 2016, en í ákæru segir að hann hafi vanframtalið laun um samtals 1,1 milljarð og þar með komist hjá því að greiða tryggingagjald upp á 81,8 milljónir.
Sigurður Gísli er einnig ákærður fyrir að röng skil á eigin skattaframtölum á árunum 2011 til 2017, en í ákærunni er hann sagður hafa vantalið úttektir út úr rekstri Sæmarks upp á 1,05 milljarða sem voru skattskyldir. Þá hafi hann ekki talið fram tekjur að fjárhæð 40,4 milljónir frá félaginu Maritime-Transport KFT árið 2011 og því samtals verið með vanframtaldar tekjur upp á 1,09 milljarð á tímabilinu. Segir í ákæru að af þessum tekjum hafi hann átt að greiða tekjuskatt og útsvar upp á 497 milljónir.
Auk þessa er Sigurður Gísli ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinning af fyrrnefndum brotum upp á samtals 1,29 milljarða. Stærstur hluti upphæðarinnar var ráðstafað til aflandsfélaganna Freezing point corp og Fulcas inc., en Sigurður Gísli var raunverulegur eigandi og hagnaðaraðili að báðum félögunum. Segir í ákærunni að samtals hafi 988 milljónir endað á aflandsreikningunum.
Í ákærunni er farið yfir hvernig greiðslum var komið frá Sæmarki til þessara félaga, en það var meðal annars gert með því að greiða útgefna reikninga kýpversks félags að nafni Amih Ltd. sem Sigurður Gísli var einnig raunverulegur eigandi að, áður en Amih millifærði upphæðina á reikning Freezing point í Lúxemborg. Þá fór einnig stór upphæð í gegnum svissneska félagið Amber Seafood, en Sigurður Gísli er annar eigandi þess ásamt öðrum af meðákærðu í málinu.
Þá er einnig rakið hvernig Sigurður Gísli hafi gefið út afsláttarreikninga á hendur félaginu North Coast Seafood og þannig lækkað eða gert upp skuld North Coast Seafood við Sæmark. Í kjölfarið hafi greiðslur borist inn á aflandsfélögin og því hafi afsláttur ekki verið veittur, heldur verið „leið ákærða til að dylja úttektir sínar úr félaginu.“
Ákæruvaldið fer einnig fram á upptöku fjármuna af reikningum Sæmarks. Annars vegar 8,8 milljónir í íslenskum krónum og svo um 31.500 Bandaríkjadölum, en það nemur um 4,3 milljónum króna.
Er þriðji maðurinn sem er ákærður sagður hafa aðstoðað Sigurð Gísla við fyrrnefnt virðisaukaskattsbrot upp á 2,4 milljónir með útgáfu tilhæfulausra reikninga.
Þetta er ekki fyrsta málið sem tengist Sæmarki, en árið 2019 var útgerðarmaður dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 36 milljónir í sekt í tengslum við skattalagabrot og peningaþvætti í tengslum við útgáfu rangra reikninga á hendur Sæmarki í þeim tilgangi að taka fjármuni úr félaginu í eigin þágu.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í næstu viku.