Skiptust á að hnoða manninn

Íbúi í Bátavogi kveðst hafa séð allt loga í bláum …
Íbúi í Bátavogi kveðst hafa séð allt loga í bláum ljósum um helgina þegar maður lést í húsinu. Kona situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum bara heima í rólegheitum þegar við sáum allt loga í bláum ljósum og þá var slökkviliðsbíll hérna fyrir utan, þrír sjúkrabílar og alla vega fjórir lögreglubílar og allir á hlaupum,“ segir íbúi í fjölbýlishúsi við Bátavog í Vogabyggð þar sem maður á sextugsaldri lést um helgina. Kona var úrskurðuð í gæsluvarðhald vegna málsins og það framlengt til 4. október í gær.

„Ég sá engan fara út í járnum en þegar þriðji sjúkrabíllinn kom voru þeir að fara með mann út á börum og voru að hnoða hann, þeir skiptust á að hnoða hann, við stóðum hérna úti á svölum og það gerðu fleiri íbúar hér líka, til dæmis nágranni minn við hliðina á mér, við vorum að ræða saman hérna meðan á þessu stóð,“ segir íbúinn.

Í öðrum stigagangi

Viðmælandi mbl.is kveðst ekkert hafa þekkt til fólksins sem í hlut á í þessu máli. „Ég er náttúrulega í öðrum stigagangi svo þetta er ekki einhver sem maður rakst á í stigaganginum reglulega. Ég veit ekkert hvort konan býr þarna eða hvort hann bjó þarna,“ segir viðmælandinn að lokum.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði við mbl.is að rannsókn málsins væri í fullum gangi og miðaði vel, verið væri að taka skýrslur af fólki, afla gagna og fara yfir gögn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert