„Ég var sagður skvíler og rotta“

Allir sakborningar, þolendur og vitni hafa borið vitni fyrir dómi …
Allir sakborningar, þolendur og vitni hafa borið vitni fyrir dómi í Bankastræti Club-málinu. Manneskjan á myndinni er einn sakborninga en ekki endilega sá er vitnað er í. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það voru margir orðnir þreyttir á þessum latínó hóp,“ sagði stofnandi Snapchat „grúppu“ þegar hann gaf vitnisburð fyrir dómi í Gulhömrum. Hann er einn þeirra sem ákærður er fyrir alvarlega líkamsárás í Bankastræti Club-málinu.

Snapchat grúppan „Kvöldið í kvöld“ virðist hafa gegnt lykilhlutverki þegar ólíkir hópar manna voru samankomnir að kvöldi 17. nóvember 2022 áður en ráðist var inn á Bankastræti Club skömmu fyrir miðnætti.

Sammála um að bera ekki vopn 

Hann viðurkennir að hafa boðið 10 manns í grúppuna. Flestir úr hópnum hafi svo safnast saman á Dubliner eftir að hafa verið að skemmta sér á ólíkum skemmtistöðum í bænum. Sérstaklega hafi verið rætt um vopnaburð og þá að hafa slík ekki meðferðis.  „Við vorum þar átta eða níu sem vorum sammála um að bera ekki vopn.“

Sakborningarnir hittust margir á Dubliner.
Sakborningarnir hittust margir á Dubliner. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að sögn hans var latínó-hópurinn þekktur fyrir að ganga með hnífa og að hópast saman á svokölluðum latínókvöldum á Bankastræti Club. Dæmi voru um að eftir slík kvöld hafi „latínó-hópurinn“ átt í hópslagsmálum og hafi meðal annars lent í átökum við Albana og Pólverja. 

Hótanir eftir vitnisburð í sakamáli 

Maðurinn kemur úr hópi dyravarða sem margir sögðu farir sínar ekki sléttar eftir samskipti við „latínó-hópinn“. Fyrir dómi kom meðal annars fram frásögn af því að yfirdyravörður á ónefndum skemmtistað hafi verið barinn „til óbóta.“

Þá hafi verið kveikt í mótorhjóli í hans eigu auk þess sem kærustu hans og barni hafi verið hótað að sögn mannsins. Það áreiti og hótanir hafi byrjað eftir að hann bar vitni í öðru sakamáli. „Ég var sagður skvíler og rotta.“ Bætir hann því við að krafa hafi verið gerð á hann að greiða fyrir málskostnað í málinu. 

Taka ber fram að fórnarlömbin í málinu kannast ekkert við að tilheyra neinum latínó-hópi. Þá segjast þau ekki hafa nokkuð sökótt við árásarmennina. 

Maðurinn segir að hugmyndin hafi verið sú að fara að ógna mönnunum. Sýna yfirburði þannig að ógnanir og hótanir í þeirra garð myndu hætta. Send hafi verið út boð til annarra dyravarða sem áttu að segja til ef til þessara manna myndi sjást. Flestir hafi búist við því að mæta stórum hópi. „Við ætluðum bara að ræða við þá,“ segir maðurinn en hann hafi þó verið meðvitaður um að til átaka gæti komið.

Menn bíða þess að gefa vitnisburð.
Menn bíða þess að gefa vitnisburð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kom á óvart hve margir komu 

Hann segir að það hafi komið honum á óvart hve margir voru samankomnir fyrir utan Bankastræti Club en í heild voru 27 sem skilgreindir voru sem hluti af hópnum af lögreglu. Sagðist hann einungis hafa rætt málið við átta eða níu og vísaði þar til umræðna um málið á Dubliner. 

Í framhaldi réðust þeir svo inn á Bankastræti Club og bar minnst einn þeirra hníf við atlöguna. Úr varð að 10 eru ákærðir fyrir alvarlega líkamsárás og 15 fyrir liðsinni við árásina.  

Þessi vitnisburður er einungis einn þeirra 25 sem sakborningar gáfu við aðalmeðferð málsins. Skýrslutöku í héraðsdómi lauk í dag og á mánudag og þriðjudag verður málflutningur 25 lögmanna í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert