Læknar sem kallaðir voru fyrir dóm í Bankastræti Club-málinu segja að þeir áverkar sem tveir brotaþolar fengu í árásinni þann 18. nóvember hefðu getað leitt til dauða. Annar mannanna var með sjö áverka eftir eggvopn. Árásin tók að sögn 10-20 sekúndur.
Sá sem var með fleiri áverka og sá sem sakborningar segjast hafa helst átt sökótt við var meðal annars með innvortis áverka og loftbrjóst eftir stunguárás.
„Hann var vel vakandi og viðræðuhæfur,“ segir læknirinn spurður um ástand mannsins þegar hann kom á bráðamóttöku að nóttu 18. nóvember eftir árásina. Þá kom fram að í fyrstu hefði hann ekki viljað segja hvað kom fyrir.
Spurður af saksóknara hver afdrif hans hefðu orðið ef ekki hefði komið til læknisaðstoðar segir læknirinn líkur á því að illa hefði farið.
„Það eru nokkur atriði sem ég get staðhæft. Út frá þessum áverkum. Heildardómur minn er sá að og þá sérstaklega sá sem var á brjóstholi, getur leitt til dauða,“ segir læknirinn.
Spurður af verjanda þess sakbornings, sem sakaður er um manndrápstilraun, hvort líkur séu á því að fleiri en eitt eggvopn hafi verið notað til þess að veitast að manninum þá segir læknirinn ekki hægt að útiloka það.
Sá sakborningur hefur viðurkennt að hafa stungið tvo af þeim þremur sem ráðist var á á Bankastræti Club. Öll þrjú fórnarlömbin fengu stungusár eftir árásina. Málsvörn verjanda gengur m.a. út á það að fleiri eggvopn hafi verið notuð við árásina umfram það sem hans skjólstæðingur hefur viðurkennt að hafa notað.
Tíu eru sakaðir um alvarlega líkamsárás af þeim 25 sem réðust inn í skemmtistaðinn. Voru þeir allir inni í VIP-herberginu þar sem árásin átti sér stað.
Einnig var kallaður fyrir dóminn æðaskurðlæknir. Var hann á vakt umrætt kvöld og sinnti einu fórnarlambanna sem fékk stungusár í lærið. Hafði ein af minni slagæðum farið í sundur og þurfti hann að fara í bráðaaðgerð til þess að loka fyrir blæðinguna.
Spurður hvort stungusárið hefði verið lífshættulegt þá segir læknirinn að ef ekkert hefði verið að gert hefði blæðingin ekki stöðvast af sjálfu sér.
„Já, þetta hefði örugglega getað leitt til dauða ef til aðstoðar bráðaliða og lækna hefði ekki komið,“ segir læknirinn.