Verjandi Alexanders Mána Björnssonar, sem ákærður er fyrir tilraun til manndráps í Bankastræti Club-málinu svokallaða, segir skjólstæðing sinn ekki njóta réttlátrar málsmeðferðar. Dómari hafi ítrekað stöðvað hann þegar hann spurði rannsóknarlögreglumann um rannsókn á hnífsstunguárásarhluta málsins.
Í gegnum vitnaleiðslur var áberandi orðaskak á milli Sigríðar J. Hjaltested dómara og Ómars R. Valdimarssonar lögmanns. Telur Ómar að dómari hafi ítrekað truflað störf hans sem verjanda í gegnum ferlið. Alvarlegasta truflunin hafi þó snúið að því þegar hún truflaði spurningar hans til rannsóknarlögreglumanns sem stjórnaði rannsókn málsins í dag.
Af þeim sökum lagði Ómar fram bókun fyrir dóminn þar sem fram koma þau sjónarmið að vegið sé að rétti skjólstæðings hans til réttlátrar málsmeðferðar.
Þá gagnrýnir hann rannsókn lögreglu. Vísar Ómar meðal annars í grein sem
birtist á mbl.is. Er þar vísað í að gæði myndbanda gætu verið betri í miðbæ Reykjavíkur og meðal annars þau sem notuð voru til rannsóknar í málinu.
Ómar R. Valdimarsson er lögmaður Alexanders Mána.
Ljósmynd/Aðsend
Afar áhugaverð ummæli
„Þetta eru afar áhugaverð ummæli frá stjórnanda rannsóknarinnar svo vægt sé til orða tekið. Gott og blessað - gæði myndanna eru kannski ekki upp á marga fiska. En allt að einu treystir sami maður sér til að segja afdráttarlaust fyrir dómi að það sé útilokað að fleiri en einn hnífur hafi verið notaður í VIP-herberginu á Bankastræti Club þetta kvöld. Hvernig kemst hann að þeirri niðurstöðu? Jú með því að horfa á þessar sömu upptökur og hann gerir svo lítið úr,“ segir Ómar í orðsendingu til mbl.is
Þá gerir Ómar athugasemd við rannsóknina og þá að hann hafi ekki fengið að spyrja lögreglumanninn nægjanlega um hana vegna inngripa dómara.
„Þetta skiptir auðvitað öllu máli fyrir ákærða Alexander Mána, sem ákærður er fyrir allar hnífstungarnar sem ákært er fyrir í málinu.“ Telur hann ljóst að tvær auka stungur hafi verið á baki eins brotaþola sem ekki er ákært fyrir.
Annar hafi sést með hníf
„Vörn ákærða Alexanders Mána byggir alfarið á því að hann geti ómögulega borið ábyrgð á öllum stunguáverkum á brotaþolum umrætt kvöld, m.a. vegna þess að hann hafði hvorki tíma né tækifæri til. Það er því afar bagalegt að málið hafi ekki verið rannsakað betur en raun ber vitni. Hér er rétt að taka það fram að a.m.k. einn ákærði til viðbótar sést munda hníf þetta sama kvöld á Prikinu. Það er óumdeilt,“ segir Ómar.
Þá segir Ómar stjórnanda rannsóknarinnar hafa viðurkennt að ekki hafi verið rannsakað hvað hafi orðið um hníf sem sást fyrr um kvöldið á myndbandi frá skemmtistaðnum Prikinu. Eins hafi ekki verið rannsakað hvort öll stungusárin hafi verið eftir saman hníf. „T.d. með skýrslu réttarmeinarfræðings.“ Stjórnandi rannsóknarinnar sagði slíkt ekki hafa verið gert. Er það þrátt fyrir að fjölmörg fordæmi séu fyrir slíku.
Alvarlegasta inngripið
Í ljósi þessa gerir Ómar alvarlegar athugasemdir við að rannsóknarlögreglumaðurinn geti fullyrt um að enginn annar hnífur hafi verið notaður í árásinni en sá sem Alexander Máni hefur viðurkennt að hafa notað.
„Tel ég fullt tilefni til að gera bókun verjanda ákærða Alexanders Mána skil í fréttaflutningi vegna inngrips dómara í störf verjanda. Inngripið var langt frá því að vera það fyrsta í þessari viku en líklega var þetta það alvarlegasta.
Bókun Ómars fyrir dóminn er eftirfarandi.
„Geri athugasemd við það að verjandi fái ekki fullnægjandi tækifæri til þess að spyrja yfirmann rannsóknar málsins, lögreglumann nr. 0132, ítarlegra spurninga án truflunar dómara, m.v.t. þess að við séum komin fram yfir dagskrá réttarins. Truflanir á spurningum verjanda til vitna hafa þau óheppilegu áhrif að geta leitt til þess að menn missi þráðinn eða geti ekki fylgt spurningum sínum eftir nægjanlega vel. Hvorutveggja vegur að rétti sakborninga til réttlátrar málsmeðferðar, s.s. lýst er í MSE og stjórnarskrá, sbr. réttinn til þess að fá að spyrja vitni sem leidd eru gegn sökuðum mönnum, sem og þetta takmarkar
möguleika verjanda til þess að halda uppi eðlilegum vörnum fyrir sakaðan mann. Ekki verður
séð að hægt sé að hafa þessi réttindi af sakborningi í sakamáli vegna tímaáætlunar dómsins."