Kosning um sameiningu Tálknafjarðar og Vesturbyggðar

Tálknafjörður.
Tálknafjörður. mbl.is

Íbúakosning um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar hefst á mánudaginn og stendur til og með 28.október.

Kjörnir fulltrúar og íbúar sveitarfélaganna hafa unnið mikla vinnu við undirbúning kosninganna. Starfshópar hafa rýnt í öll málefni sveitarfélaganna og er það skýr niðurstaða allra aðila að forsenda fyrir farsælli sameiningu séu jarðgöng um Mikladal og Hálfdán. Umrædd jarðgöng tengja saman byggðakjarnana Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal.

Góð tenging á milli byggðakjarna innan væntanlegs sameinaðs sveitarfélags er lykillinn að því að svæðið geti uppfyllt skilyrði þess að vera eitt búsetu-, þjónustu- og atvinnusvæði. Samstarfsnefndin hefur sammælst um staðsetningu jarðganga í samræmi við innviðagreiningu er unnin var fyrir Vesturbyggð 2019 og er því full samstaða um staðsetningu jarðganga á svæðinu.

Kosningin með óhefðbundnu fyrirkomulagi

Íbúakosningin verður með óhefðbundnu fyrirkomulagi. Kosningarétt hafa þau sem náð hafa 16 ára aldri 28. október næstkomandi. Íbúar sem sjá sér ekki fært að mæta á kjörstað geta óskað eftir því að greiða atkvæði sitt með póstkosningu. Slík beiðni skal berast skrifstofum sveitarfélaganna í tölvupósti eða í síma og skal taka fram hvort kjörgögn eigi að berast til viðkomandi aðila í almennum bréfapósti eða í tölvupósti. Þá hefur kjörstjórn ákveðið að nýta sér heimild til að vera með færanlegan kjörstað. Eigi kjósandi erfitt með að mæta á kjörstað getur hann óskað eftir færanlegum kjörstað. 

Íbúar í dreifðari byggðum, sjúkrastofnanir, stærri vinnustaðir og fjölmennir viðburðir geta einnig óskað eftir færanlegum kjörstað (sérútbúnum bíl sem er útbúinn sem kjörklefi). Stað- og tímasetning færanlegs kjörstaðar verður auglýst með a.m.k. fimm daga fyrirvara á vefsíðum Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar.

Þjóðskrá hefur opnað fyrir rafrænan aðgang að kjörskrárstofni svo kjósendur geti með einföldum hætti kannað hvort þeir eru skráðir á kjörskrá í kosningunum. Íslenskir og norrænir ríkisborgarar sem eiga lögheimili í öðru hvoru sveitarfélaginu sem um ræðir og hafa náð 16 ára aldri á kjörtímabilinu geta kosið um sameiningu. Erlendir ríkisborgarar, 16 ára og eldri, sem átt hafa lögheimili á Íslandi í þrjú samfellt á kjörtímabilinu hafa einnig kosningarétt. 

Nánari upplýsingar um íbúakosningarnar og helstu niðurstöður vinnuhópanna má finna á vefsíðunni vestfirdingar.is og í sérstökum kynningarbæklingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert