Engar óyggjandi niðurstöður liggja fyrir um það hvort nægjanlega margar festingar hafi verið notaðar og þá hvort vindhraði hafi verið of mikill þegar hoppukastalaslys varð á Akureyri 1. júlí 2021 en 10 börn slösuðust þegar vindhviða lyfti kastalanum.
Þetta kemur fram í matsgerð dómskvaddra matsmenn sem voru fengnir til að svara nokkrum spurningum um festingar og veðurfar umræddan dag. Var það hlutverk matsmannanna að svara spurningum um það hvort kastalinn hefði verið nægjanlega vel festur sem og hvort veðurfarslegar aðstæður með tilliti til vinds hafi verið á þann veg að ekki hafi verið óhætt að setja kastalann upp.
Nokkur atriði þykja þó liggja fyrir varðandi umræddan dag. Engar leiðbeiningar voru til staðar frá framleiðanda um þann fjölda festinga sem bar að nota til að festa kastalann. Mat matsmanna er að 54 festingar hefði þurft til. Óljóst er hve margar festingar voru notaðar til að festa kastalann en við skoðun lögreglu á einni langhlið kastalans eftir slysið má sjá að 14 festingar voru notaðar á þá hlið. Þykir það fullnægjandi ef miðað er við mat matsmanns. Þannig hafi átt að vera með 14 festingar á tveimur hliðum en 13 á öðrum tveimur.
Þá þykir líklegt að vindhviður hafi verið snarpari en staðlar um notkun á hoppukastalanum gera ráð fyrir.
Samkvæmt stöðlum má vindur ekki fara yfir 10,56 m/sek þegar kastalinn er notaður og var eitt af viðfangsefnum veðurfræðings að meta hvort vindhraði hafi farið yfir 10,7 m/sek. Fram kemur að þennan dag hafi vindhraði almennt verið undir 10 metrum á sekúndu á svæðinu. Byggt á greiningum úr gögnum á vindmastri Isavia við flugbrautarenda á Akureyrarflugvelli þykir hins vegar líklegt að vindhviður hafi farið yfir yfir 10,7 metra á sekúndu umræddan dag.
„Ekki er hægt að horfa til veðurathuganna eða veðurspáa á fjarlægum (eða jafnvel nærliggjandi) veðurstöðvum til að spá fyrir um eða áætla staðbundið vindafar á ákveðnu svæði,“ segir ennfremur í dómnum.
Fimm eru ákærðir í málinu. Samkvæmt ákærunni settu sakborningar upp 1.600 fermetra hoppukastala á Akureyri sumarið 2021 „án þess að festa hann nægilega við jörð“ og án þess að fylgjast „nægilega með þeim festingum sem þó voru fyrir hendi“. Afleiðingin hafi verið að fimmtudaginn 1. júlí losnaði eitt horn kastalans og fauk upp í margra metra hæð og lagðist yfir sjálft sig en fjöldi barna hafi þá verið við leik í honum.
Matsgerðin var unnin í samræmi við úrskurð Landsréttar sem snéri við úrskurði héraðsdóms sem hafði hafnað beiðni verjanda um endurmat á gögnum málsins.