„Aðstæður svolítið ógnvænlegri núna“

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir eitt af hlutverkum sínum sé að stappa stálinu í bæjarbúa og upplýsa þá um stöðu mála varðandi hugsanlegt eldgos á svæðinu.

„Hlutverk bæjarstjórans er nú yfirleitt að gera sitt besta til að aðstoða íbúana og fyrirtæki þeirra og nú reynir svo sannarlega á að gera það sem best,“ sagði Fannar í samtali við mbl.is eftir upplýsingafund almannavarna í Skógahlíð í dag.

Fannar segir að hann og flestir íbúar Grindavíkur séu reynslunni ríkari eftir atburði undanfarinna ára með tíðum jarðskjálftum og þremur eldgosum.

Finn fyrir meiri kvíða og ótta

 „Við þekkjum þessar aðstæður æði vel en því miður eru aðstæður svolítið ógnvænlegri núna eins og staðan er. Ég finn fyrir meiri kvíða og ótta hjá fólki heldur en í síðustu tveimur gosum og þar spilar staðsetningin inn í, nálægðin við Grindavík og að það verði mögulegt hraunflæði inn í bæinn. Það þýðir það náttúrulega líka að ef það fer að gjósa þarna þá eru gasupptökin nær okkur sem geta reynst hættuleg fyrir heilsu fólks,“ segir bæjarstjórinn.

Hefur þú tekið eftir því að íbúar Grindavíkur hafi verið að birgja sig upp af matvörum, kertum og öðru slíku og að fólk sé að verða sér úti um rafmagnsofna?

„Nei ég held svo almennt að það sé ekki komið á það stig og fólk má ekki kaupa allt og marga rafmagnsofna. Þá sprengir það bara kerfið í götunum. Ég veit þótt það hafi ekki gerst núna að fólk hefur sankað að sér einhverju í töskur ef það þyrfti að hverfa skyndilega á braut. Ég hvet fólk til að gera það ef því líður betur með það og að vera þá tilbúið. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er best að búa sig vel og vona það besta en búast við hinu versta,“ segir bæjarstjórinn.

Fannar segir að nú sér verið að uppfæra rýmingaráætlun sem hefur verið til á netinu og hefur verið dreift í hús. 

„Við ætlum að gera það á nýjan leik og að upplýsingarnar varðandi grunnatriði varðandi fyrstu viðbrögð verði til á íslensku, pólsku og ensku,“ segir Fannar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert