Hefur áhyggjur af höfninni í Grindavík

Séð úr höfninni í Grindavík. Haraldur segist hafa miklar áhyggjur …
Séð úr höfninni í Grindavík. Haraldur segist hafa miklar áhyggjur af því að hún fyllist af hrauni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur að höfnin í Grindavík sé í mikilli hættu ef til eldgoss komi.

Hann telur þó ekki miklar líkur á eldgosi, en ef af því yrði myndi gos verða úti í sjó.

„Ég hef líka áhyggjur af höfninni. Það þarf ekki mikið til að eyðileggja þessa höfn, fylla hana af hrauni. Bæði eru sprungur þarna í höfninni og þó svo að kvikan komi upp einhvers staðar fyrir utan þá rennur hún út í höfnina, því þetta er lægðin. Þannig í stóru myndinni þarf algjörlega að endurskipuleggja þennan bæ,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is, spurður hvort hann sjái fyrir sér að Grindavík haldist í byggð eftir þær hamfarir sem þegar hafa orðið og eiga kannski eftir að verða.

Grindvíkingar geta endurbyggt líkt og Vestmannaeyingar

„Hvað gerðu menn ekki í Vestmannaeyjum? Ég held að það ætti að endurskipuleggja bæinn,“ segir Haraldur og veltir fyrir sér möguleikanum á að færa byggðina.

Inntur eftir því hvort hann teldi betra að færa byggðina austan- eða vestanmegin við sigdalinn í gegnum Grindavík svarar hann: „Bara hvort sem er. Það er ágætt þarna fyrir vestan.“

Á kortinu má sjá sigdalinn merktan með gulum línum.
Á kortinu má sjá sigdalinn merktan með gulum línum. Kort/Veðurstofa Íslands

Íslendingar eru þrjóskir

Haraldur bendir á að nú sé alveg ljóst að Reykjanesskagi sé vaknaður og sé virkt gosbelti. Það hafi ekki verið í gangi í 800 ár. „Af einhverjum ástæðum er Reykjanesið vaknað og það má þá búast við því að það verði virkni hér og þar á nesinu,“ segir Haraldur. 

Spurður út í byggð á Reykjanesskaganum segir hann að koma muni upp lítil gos af og til. Þau geti ógnað byggð. 

„En Íslendingar eru þrjóskir og því smærra sem bæjarfélagið er því þrjóskara er það. Þannig það er erfitt að breyta skipulagi en vonandi kemur ekki til þess að það þurfi. Vonandi gutlar þetta bara að dýpinu og sullast ekkert upp. En það koma aðrar hrinur í framtíðinni. Þetta er ekki sú eina,“ segir Haraldur. 

Eyðileggingin í Grindavík eins og hún blasti við ljósmyndara mbl.is …
Eyðileggingin í Grindavík eins og hún blasti við ljósmyndara mbl.is í gær, 16. nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætti að leggja eldfjallafræðina niður

Jarðvísindamenn líta nú helst til Sundhnúkagígaraðarinnar og þá helst til Hagafells þar sem mesta skjálftavirknin hefur verið síðustu sólarhringa.

Ármann Höskuldsson, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, hefur líka bent á Eldvörp og segist enn telja líklegast að þar gjósi því þar mælist þenslan hvað mest.

Hvað finnst þér um það mat jarðvísindamannanna að gos sé líklegast við Hagafell eða Sundhnúk?

„Nei, ekkert endilega,“ svarar Haraldur. „Sumir voru með voða æsing um að það kæmi enn upp í Eldvörpum. Ég átta mig ekki alveg á því,“ segir hann.

Haraldur bendir þá á hvað eldfjallafræðingar séu margir ósammála um hvar líklegast taki að gjósa.

„Svona er eldfjallafræðin. Það á að leggja hana niður,“ segir eldfjallafræðingurinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert