Sofandi á verðinum: Fyrsta jarðhitaátakið í áratugi

Hæstan styrk hlaut HEF veitur fyrir styrkverkefnið Búlandsnes - Djúpivogur …
Hæstan styrk hlaut HEF veitur fyrir styrkverkefnið Búlandsnes - Djúpivogur eða tæpar 135 milljónir króna. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest tillögur stjórnar Orkusjóðs um úthlutun styrkja til verkefna um leit og nýtingu jarðhita.

Um er að ræða fyrsta jarðhitaleitarátakið sem ráðist er í síðan undir lok síðustu aldar. Alls bárust 25 umsóknir, samtals að upphæð nærri 1.400 milljónum króna og alls hlutu átta verkefni styrk að upphæð um 447 milljónir króna.

Jarðhiti í stað raforku eða olíu

Í maí á þessu ári óskaði ráðherra eftir því að Orkusjóður myndi sjá um framkvæmd átaks í leit og nýtingu jarðhita árin 2023-2025  þar sem áhersla væri lögð á stuðning við verkefni sem hefðu það að markmiði að hefja nýtingu jarðhita til almennrar húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar.

Hæstan styrk hlaut HEF veitur fyrir styrkverkefnið Búlandsnes - Djúpivogur eða tæpar 135 milljónir króna. Orkubú Vestfjarða hlaut þá rúma 91 milljón króna fyrir styrkverkefnið Ísafjörður og Patreksfjörður (1. áfangi).

Þá hlaut Orkubú Vestfjarða styrki fyrir tvö önnur verkefni samtals að fjárhæð um 96 milljónir króna. Vopnafjarðarhreppur hlaut styrk fyrir Selárlaug og Grundafjarðarbær fyrir orkuskipti sundlaugar, grunnskóla og íþróttahúss. Þá hlaut Kaldraneshreppur styrk fyrir hitaveituvæðingu Bæjartorfunar og Skaftárhreppur fyrir jarðhitarannsóknir.

Standa frammi fyrir erfiðleikum

Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að Ísland hafi náð miklum árangri í nýtingu jarðhita til húshitunar og að yfir 90% landsmanna hafi aðgang að hitaveitu.

„Hins vegar er það svo að við höfum verið sofandi á verðinum undanfarna tvo áratugi. Þetta er fyrsta átakið í jarðhitaleit síðan á síðustu öld og líkt og fram kom í skýrslu ÍSOR fyrr á árinu þá stendur meirihluti hitaveitna landsins frammi fyrir erfiðleikum á komandi misserum.

Við höfum á undanförnum 20 árum niðurgreitt húshitunarkostnað sem nemur um 1,5 milljörðum á ári. Nú sækjum við fram í jarðhitamálum á ný.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert