Hefur áhrif á ferðaþjónustuna

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri.
Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri. Samsett mynd

Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri segir óvissuna á Reykjanesskaga hafa áhrif á ferðaþjónustuna, sem séu þó minni en óttast var í upphafi.

Arnar Már fór yfir stöðuna í þættinum Sprengisandi í dag.

Sagði hann það blasa við að þegar hugtök eins og neyðarstig, rýming heils bæjarfélags og yfirvofandi eldgos komi fram, hugsi ferðamenn sig kannski tvisvar um áður en þeir ákveða að ferðast til Íslands.

Miðstöð hefur verið opnuð í Hafnarfirði sem er fyrst og fremst ætluð erlendu fjölmiðlafólki. Að sögn Arnars hafa yfir 40 þúsund fréttir um málin á Reykjanesskaga verið birtar á erlendum miðlum, en umfjöllun hafi þó minnkað frá því í síðustu viku.

Benti hann einnig á að umræðan hafi á tímum verið röng, þá sérstaklega á samfélagsmiðlum.

Hann sagði áherslu lagða á það að koma upplýsingum til skila til erlendra fjölmiðla að um sé að ræða staðbundinn atburð þar sem röskun á flugi sé mjög ólíkleg og að Ísland sé öruggur áfangastaður.

Erfitt að spá í spilin

„Við erum að fylgjast mjög vel með og fáum upplýsingar frá fyrirtækjum og Samtökum fyrirtækja í ferðaþjónustu og fleirum hver staðan sé hjá þeim, hvort það sé mikið um afbókanir eða hvort það sé að hægja á bókunum fram í tímann,“ sagði Arnar, spurður um framhaldið.

„Okkur sýnist í stuttu máli að áhrifin séu minni en við óttuðumst í upphafi, sem betur fer.“

Þó hefðu afbókanir hjá tilteknu fyrirtæki hér á landi verið þrefalt fleiri en venjulega miðað við árstíma.

„Þannig að áhrifin eru talsverð og erfitt að spá í spilin núna hvernig þetta verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert