Ómar R. Valdimarsson, lögmaður Alexanders Mána Björnssonar, sem dæmdur var til sex ára fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tilraun til manndráps á Bankastræti Club segir niðurstöðuna að einhverju leyti jákvæða fyrir sinn umbjóðanda.
Alexander Máni breytti afstöðu sinni til sakargifta í málinu á meðan réttarhöld yfir honum og 24 öðrum sakborningum í málinu fór fram. Alexander hafði játað á sig að hafa stungið þrjá sakborninga, en tók játninguna til baka í tveimur tilfellanna á meðan réttarhöldum stóð.
Héraðsdómur sýknaði Alexander um eina árásina en sakfelldi hann í hinum tveimur tilfellunum. Var honum gert að greiða 3,4 milljónir kr. í sakarkostnað.
„Við teljum að borið hafi að sýkna hann líka varðandi annað fórnarlamb. Hann er sakfelldur fyrir það. Við erum ekki endilega sátt við það en ég á eftir að fara yfir málið með mínum umbjóðanda," segir Ómar.
Hann telur niðurstöðuna hefði mátt rökstyðja betur og þá með tilliti til samverknaðar, þ.e. hvort einhverjir aðrir en Alexander hefðu verið með hníf meðferðis t.a.m.
„Það liggur engin ákvörðun um málið hvað varðar minn umbjóðanda. En ég held að það sé alveg ljóst að þessu máli verði áfrýjað. Einhverjir af sakborningunum munu gera það,“ Ómar. Nokkrir óskilorðsbundnir dómar féllu í málinu og voru þeir á bilinu 4-12 mánuðir að lengd fyrir stórfellda líkamsárás.