„Þungbær staða að vera í“

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir kveður stöðuna þungbæra en stjórnendur Árborgar horfi …
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir kveður stöðuna þungbæra en stjórnendur Árborgar horfi björtum augum fram á veginn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við erum í fjár­hags­áætl­un sem bygg­ir á aðgerðaáætl­un sem við sömd­um um við innviðaráðuneytið eða í raun eft­ir­lits­nefnd­ina [eft­ir­lits­nefnd með fjár­mál­um sveit­ar­fé­laga],“ seg­ir Fjóla Stein­dóra Krist­ins­dótt­ir, sveit­ar­stjóri Árborg­ar, í sam­tali við mbl.is um fjár­hags­stöðu sveit­ar­fé­lags­ins sem nokkuð hef­ur verið til umræðu í fjöl­miðlum.

Eins og mbl.is greindi frá í júlí samþykkti bæj­ar­ráð þá sam­hljóða lán­töku að fjár­hæð 1,37 millj­arða til tveggja ára með það fyr­ir aug­um að fjár­magna sveit­ar­fé­lagið í gegn­um eign­ir í sölu­ferli.

„Við sömd­um um það við eft­ir­lits­nefnd­ina að fara í aðgerðir og þær fela í sér ýms­ar hækk­an­ir á gjald­skrám,“ held­ur Fjóla áfram, „sveit­ar­fé­lög­in eru að hækka um 7,5 til 8,0 pró­sent, við erum með 7,7 pró­sent en svo erum við nátt­úru­lega að fara í álag á út­svar,“ seg­ir hún.

Dýrt að skulda í svona ár­ferði

Seg­ir hún fjár­hags­stöðu sveit­ar­fé­lags­ins mjög þrönga og hafi ytri aðstæður þar síst unnið með bæj­ar­ráðinu, sveit­ar­fé­lagið sé ein­göngu með verðtryggð lán og þar með hafi verðbólga, vext­ir og fjár­magns­gjöld verið þung­bær. „Það er dýrt að skulda í svona ár­ferði og auðvitað er það þannig að við þurf­um að horfa í hverja krónu og erum að hagræða og vinna í því eins og við get­um en á sama tíma er höfuðstóll lán­anna okk­ar að hækka,“ seg­ir sveit­ar­stjór­inn.

Sam­tím­is þessu öllu sam­an hafi verið farið í mikl­ar aðgerðir og áfram verði haldið á þeirri braut – ábyrgð og festa sýnd við gerð fjár­hags­áætl­ana. „En þetta er auðvitað þung­bær staða að vera í, að þurfa að fara í þess­ar hækk­an­ir, ég ætla ekki að ljúga neinu um það,“ seg­ir Fjóla.

Hvernig skyldi henni þá lít­ast á stöðuna næstu miss­er­in?

„Ég er al­veg bjart­sýn á að þetta muni skila sér ef við ber­um gæfu til að fylgja áætl­un­inni, við erum með flott starfs­fólk sem er að vinna að henni og við þurf­um bara að halda áfram að horfa í hverja krónu og vera út­sjón­ar­söm og stund­um að hugsa út fyr­ir kass­ann en þetta er bara einn liður í því að sækja tekj­ur sem við ger­um okk­ur grein fyr­ir að við ætl­um ekki að gera nema tíma­bundið,“ út­skýr­ir sveit­ar­stjór­inn.

Erfiður ljár í þúfu

Seg­ir hún að þær aðgerðir sem nú standi yfir varðandi að sækja tekj­ur í harðær­inu muni aldrei standa leng­ur en eitt til tvö ár að há­marki. „Og segj­um sem svo að verðbólga, vext­ir og annað lækki, þá auðvitað end­ur­skoðum við þetta jafnóðum, sveit­ar­fé­lag á bara að vera á núlli og veita þjón­ustu en við þurf­um að hafa efni á þeirri þjón­ustu,“ seg­ir Fjóla.

Hún ját­ar að gjald­skrár­hækk­an­irn­ar séu mörg­um erfiður ljár í þúfu og um þær hafi sprottið umræða um helg­ina. „Þetta er 1,474 pró­sentu­stig sem út­svarið er að hækka um, á sín­um tíma hækkaði Reykja­nes­bær um 3,62 pró­sentu­stig og fór í 25 pró­sent álag. Um þetta vill ríkja mis­skiln­ing­ur, fólk held­ur stund­um að við séum að hækka um tíu pró­sent sem er mis­skiln­ing­ur,“ árétt­ar Fjóla.

Kveðst hún hafa full­an skiln­ing á því að róður margra sé þung­ur og nefn­ir þar ungt fólk sem dæmi og fólk al­mennt sem berj­ist í bökk­um við að halda íbúðalán­um í skil­um á meðan mat­arkarf­an hækki og lífið verði dýr­ara.

Horfa bjart­sýn til framtíðar

„En við erum að grípa til þess­ara aðgerða tíma­bundið og það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að eft­ir­lits­nefnd­in legg­ur það til. Við erum auðvitað að huga að alls kon­ar söluaðgerðum og við vinn­um á mörg­um víg­stöðvum sem mun mögu­lega skila ein­hverju en við ger­um ekki ráð fyr­ir neinu slíku, við setj­um ekki inn í fjár­hags­áætl­un sölu sem er ekki í hendi, við horf­um bara á þá þætti sem við höf­um stjórn á. Sam­tím­is því horf­um við bara bjart­sýn til framtíðar, þetta er bara það sem við stönd­um frammi fyr­ir og verðum að tak­ast á við, á því ber­um við ábyrgð,“ seg­ir Fjóla Stein­dóra Krist­ins­dótt­ir, sveit­ar­stjóri Árborg­ar, að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert