Lögmaður Sigurðar Gísla Björnssonar, fyrrverandi eiganda og framkvæmdastjóra Sæmarks-Sjávarafurða, lagði fram frávísunarkröfu við fyrirtöku í svokölluðu Sæmarks-skattamáli í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Fyrirtaka fór fram í málinu í dag þar sem lögmenn ákærðu lögðu fram bókanir og frekari gögn um málið, en auk Sigurðar eru tveir karlmenn ákærðir í málinu fyrir stórfellt skattalagabrot sem tengist rekstri fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks-Sjávarafurðum ehf. á árunum 2010 til 2017.
Er Sigurður sakaður um að hafa komist hjá því að greiða tæpleg hálfan milljarð í skatta eftir að hafa tekið tæplega 1,1 milljarð út úr rekstri félagsins og komið fyrir í aflandsfélögum sem hann átti. Einnig er hann sakaður um að hafa komist hjá því að greiða yfir 100 milljónir í skatta í tengslum við rekstur Sæmarks með því að hafa vanframtalið tekjur félagsins og launagreiðslur starfsmanna upp á samtals 1,1 milljarð og þar með komist hjá því að greiða 81,8 milljónir í tryggingagjald. Sigurður neitar sök í málinu.
Þorsteinn Einarsson, lögmaður Sigurðar lagði fram frávísunarkröfu, en Jónas Friðrik Jónsson, lögmaður annars ákærða, lagði fram bókun þar sem hann gagnrýndi gagnaframsetningu saksóknara.
Sagði Jónas rétt að vekja athygli á því að mat fylgi ekki efnisskrá með kröfunni og að ekki væri vísað til mappa sem hafi að geyma fleiri en 100 skjöl, í aðalskjalaskrá málsins. Þá benti hann á að fyrir Landsrétti væri gerð krafa um nákvæmt efnisyfirlit og því þætti honum ekki óeðlilegt að jafnframt væri farið fram á slíkt fyrir héraðsdómi.
Auk þess gagnrýndi lögmaðurinn galla í skjölunum. Sagði hann að þar væri að finna skjöl sem snúa öfugt auk þess sem stór hluti af síðunum hefði hnikast til og því væri erfitt að átta sig á gögnunum, sérstaklega í ljósi þess að efnisyfirlit fylgir ekki gögnunum.
Til viðbótar óskaði hann eftir því að saksóknari myndi leggja fram skriflega hvaða vitni yrðu leidd fyrir í málinu, auk ítarlegri gagna um gögn sem þegar hafa verið lögð fram, þar sem settar hafa verið fram fullyrðingar um gögn sem hann sagði ekki liggja fyrir í málinu.
Lögmaður Sigurðar tók undir ábendingar lögmannsins og sagði það tímasóun hversu óaðgengileg uppsetningin væri, auk þess sem uppsetningin væri ekki í samræmi við reglur.
Loks tók lögmaðurinn undir þá frávísunarkröfu sem lögmaður Sigurðar hafði lagt fram. Þriðji lögmaðurinn tók ekki til máls, en hann lagði fram greinargerð í málinu.
Munnlegur málflutningur um frávísunarkröfuna fer fram þann 20. febrúar og kvaðst saksóknari ætla að taka afstöðu til gagnanna og annaðhvort hafa samband við verjendur eða greina frá afstöðu sinni við næsta þinghald.