Systkinin fá engar bætur eftir dóm Landsréttar

Magnús Aron Magnússon var dæmdur í 16 ára fangelsi og …
Magnús Aron Magnússon var dæmdur í 16 ára fangelsi og til að greiða 26,8 milljónir í bætur til föðurs og barna hins látna. Hann þarf hins vegar ekki að greiða systkinum hans 5 milljónir.

Þrátt fyrir að Landsréttur hafi staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um 16 ára fangelsi yfir Magnúsi Aroni Magnússyni fyrir manndráp í Barðavogsmálinu svokallaða, þá féllst Landsréttur á kröfu Magnúsar um að lækka þær miskabætur sem hann hafði verið dæmdur til að greiða um samtals 5 milljónir.

Magnús var dæmdur fyrir að myrða Gylfa Bergmann Heimisson í júní á síðasta ári í Barðavogi í Reykjavík, og segir í dómi Landsréttar að atvikum máls og framburði sé skilmerkilega lýst í fyrri dómi. Er hann því staðfestur að öllu leyti nema varðandi miskabætur til aðstandenda Gylfa.

Magnús var dæmdur til að greiða föður Gylfa, fjórum börnum hans og fjórum systkinum samtals 31,8 milljónir.

Í málatilbúnaði Magnúsar kom fram að ekki væru lagaskilyrði til að dæma miskabætur til systkina hins látna. Landsréttur tekur undir þetta og segir að í lögum sé með tæmandi hætti tilgreint hverjir geti hlotið bætur frá þeim sem hefur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi valdið dauða annars manns. Eru það maki, börn eða foreldrar. Þá er tekið fram að maki nái einnig til sambúðarmaka og börn til fósturbarns.

Segir jafnframt í dóminum að þessi heimild hafi komið ný inn í lög árið 1999 og verið matskennd og sett í því skyni að dómstólar hefðu heimild til þess að ákvarða miskabætur til þeirra sem eru nánastir hinum látna.

Telur Landsréttur að af orðalagi skaðabótalaga og athugasemdum í lagafrumvarpinu sé ljóst að réttur til miskabóta takmarkist við maka, börn og foreldra. Samkvæmt því geti systkini hins látna ekki reist miskabótakröfu á hendur geranda. Sýknar Landsréttur Magnús því af einkaréttakröfum fjögurra systkina Gylfa sem höfðu hvert um sig fengið dæmdar 1.250.000.

Eftir stendur þó að Magnús þarf að greiða föður Gylfa og fjórum börnum hans bætur upp á samtals 26,8 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka