Svandís upplýsti Katrínu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við mbl.is að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi upplýst sig um veikindi sín áður en hún greindi frá þeim á Facebook í dag.

Svandís greindi þá frá því í færslu að hún væri komin í veikindaleyfi að læknisráði eftir að hún greindist með krabbamein í brjósti.

„Svandís fékk þessi tíðindi í morgun. Hún upplýsti mig um þau og bað mig um að geyma þau þar til hún væri búin að upplýsa sína fjölskyldu. Hún greindi svo frá þessu í færslunni á Facebook eftir það,“ segir Katrín.

Katrín tekur við störfum Svandísar

Hún segir það hafa verið erfitt að fá þessi tíðindi enda hafi Svandís verið samstarfsmaður hennar til margra ára.

„Þetta eru auðvitað vond tíðindi en við vonum að sjálfsögðu hið besta. Nú fer hún í þetta verkefni og við vonum öll að henni gangi vel,“ segir Katrín.

Hver tekur við hennar skyldum?

„Ég mun leggja fram þá tillögu að ég leysi hana af næstu vikurnar. Ég held að það sé einfaldast þó svo að það sé nóg á minni könnu. Hún á það inni hjá mér eftir að hafa leyst mig af þegar ég fór í fæðingarorlof vegna yngsta sonar míns árið 2011. Það er með gleði sem ég legg aðeins meira á mig til að endurgjalda það,“ segir Katrín.

Svandís komi til með að vera frá störfum næstu vikurnar og í framhaldinu verði staðan endurmetin þegar línurnar skýrist.

Hugur allra hjá Svandísi

Hlutirnir gerðust hratt í dag.

Flokkur fólksins lagði fram vantrauststillögu á Svandísi við upphaf þingfundar en hún var skömmu síðar dregin til baka þegar fréttist af veikindum hennar.

Spurð hvort ekki sé líklegt að vantrauststillagan verði endurflutt þegar Svandís snýr til baka segir Katrín:

„Ætli það verði ekki bara að koma í ljós. Við tökum bara einn dag í einu þegar staðan er svona. Það er heilsan sem skiptir öllu og þrátt fyrir allt argaþrasið hjá okkur í pólitíkinni þá fann maður það í þinginu í dag að hugur allra er hjá Svandísi.“

Vafalaust allskonar pirringur

Eftir þessa yfirlýsingu Svandísar í morgun, þar sem hún segir álit umboðsmanns Alþingis um reglugerð hennar um hvalveiðar ekki gefa tilefni til sérstakra viðbragða, hefur þú skynjað einhvern pirring í samstarfsflokkunum í ríkisstjórninni?

„Ég veit það ekki en vafalaust er allskonar pirringur, en mér finnst hann algjörlega víkjandi út af þeim stóru verkefnum sem eru í gangi hjá mínum samstarfsmönnum. Við erum búin að sitja saman út af málefnum Grindvíkinga síðustu daga og vikur og reyna að leysa úr þeirra málum og nú í dag var fyrsta skrefið stigið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert