Vilja að dómarinn víki í hoppukastalamálinu

Hoppukastalamálið varðar slys sem varð í hoppukastala á Akureyri fyrir …
Hoppukastalamálið varðar slys sem varð í hoppukastala á Akureyri fyrir rúmlega tveimur og hálfu ári síðan. mbl.is/Margrét Þóra

Þrír af fimm sak­born­ing­um í hoppu­kastalamál­inu svo­kallaða krefjast þess að dóm­ar­inn í mál­inu víki vegna meints van­hæf­is. Dóm­ar­inn úr­sk­urðar um eigið hæfi á morg­un.

Hoppu­kastalamálið varðar slys sem varð í hoppu­kastala á Ak­ur­eyri fyr­ir rúm­lega tveim­ur og hálfu ári síðan. Þar slösuðust börn og voru fimm ákærðir fyr­ir lík­ams­meiðing­ar af gá­leysi.

Ragn­ar Björg­vins­son, lögmaður Gunn­ars Gunn­ars­son­ar sem er for­stjóri Ævin­týra­lands Perlunn­ar, full­yrðir í sam­tali við mbl.is að héraðsdóm­ar­inn, Hlyn­ur Jóns­son, reki er­indi ákæru­valds­ins.

Seg­ir ákæru­valdið hafa haldið aft­ur af gögn­um

„Það er í raun bara fjöldi atriða sem hef­ur komið í ljós í gegn­um meðferð máls­ins þar sem dóm­ar­inn hef­ur ekki verið að gæta að hlut­lægni og gengið er­inda ákæru­valds­ins – reynt að lappa mikið upp á mál­flutn­ing ákæru­valds­ins,“ seg­ir Ragn­ar og bæt­ir við:

„Það í raun tók stein­inn úr þegar kom í ljós að ákæru­valdið var búið að halda aft­ur af mjög miklu af gögn­um. Dóm­ar­inn neitaði meira að segja að boða til þing­halds til að fjalla um þá stöðu. Þetta voru yfir 13 gíga­bæt af gögn­um.“

Meðal þess sem Ragn­ar vís­ar til eru mynd­ir, upp­tök­ur og mynd­band úr búk­mynda­vél af vett­vangi sem verj­end­ur fengu ekki, að hans sögn, aðgang að. Aðspurður sagði full­trúi ákæru­valds­ins að hann teldi gögn­in ekki hafa sönn­un­ar­gildi, seg­ir Ragn­ar.

Þrátt fyr­ir það fengu mats­menn aðgang að gögn­un­um og gerðu svo mats­gerð sem sjálf ákær­an er byggð á, að sögn Ragn­ars. Því sé þess einnig kraf­ist af hálfu sak­born­ings að ákæru­valdið telj­ist van­hæft og ákær­unni vísað frá.

Tel­ur aðra hrædda við að taka af­stöðu gegn dóm­ar­an­um

Hann seg­ir að það sé rök­stutt í löngu máli af hverju dóm­ar­inn sé van­hæf­ur í kröfu sem send var á dóm­stól­inn. Ragn­ar tel­ur all­ar lík­ur á því að dóm­ar­inn muni meta sig sjálf­an hæf­an. Slíka niður­stöðu er hægt að kæra til Lands­rétt­ar.

Spurður að því af hverju all­ir sak­born­ing­ar hafi ekki tekið þátt í kröf­unni um að dóm­ar­inn myndi víkja sök­um van­hæf­is seg­ir Ragn­ar að hann telji að það sé vegna þess að þeir þori ekki að taka af­stöðu gegn dóm­ar­an­um, þar sem það muni bitna á þeirra um­bjóðend­um.

„Þeir eru þá hrædd­ir um að dóm­ar­inn muni láta það bitna á sín­um um­bjóðend­um. Það eitt og sér seg­ir allt sem segja þarf um hæfi dóm­ar­ans ef það er staðan,“ seg­ir Ragn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert