„Einn lengsti samningur sem ég man eftir“

Aðalsteinn Baldursson fer yfir sviðið í Karphúsinu í dag þegar …
Aðalsteinn Baldursson fer yfir sviðið í Karphúsinu í dag þegar samningar voru í sjónmáli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, er þrautreyndur verkalýðsforingi og hefur marga fjöruna sopið í kjaraviðræðum. 

Hann var í Karphúsinu í dag þegar undirritaður var samningur til fjögurra ára á hinum almenna vinnumarkaði. 

Mbl.is spurði Aðalstein hvort ekki sé langt síðan að slíkur langtímasamningur var gerður á vinnumarkaði hérlendis? 

„Jú. Minnið er ekki alltaf langt en þetta er einhver lengsti samningur sem ég man eftir og er ég búinn að vera í þessum kjarasamningum lengur en margur annar. Ég vona að þetta sé fyrsta vísbendingin um að við séum að horfa fram á einhvern stöðugleika næstu árin. Ég finn það hjá mér að fólkið sem hefur samband við mig er sérstaklega ungt fólk með börn og þungan heimilisrekstur. Vonandi er hægt að tryggja þessum hópi viðunandi umhverfi næstu árin með aðkomu ríkis og sveitarfélaga. Þetta fólk hefur ekki búið við slíkt en ég vona að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt. Ég held að óhætt að segja að verkalýðshreyfingin hafi aldrei áður komið að því með eins sterkum hætti að láta þessa þætti ganga upp vegna þess að aðalmálið eru vextirnir, skuldirnar, verðbólgan og gjaldskrárhækkanir sem vega þungt í bókhaldi unga fólksins. Við gefum vissulega eftir launahækkanir á móti en það er til þess að búa til þennan stöðugleika. Allir verða að leggja sitt af mörkum. Á næstu stýrivaxtafundum hjá Seðlabankanum hljótum við að sjá mjög jákvæð merki um að við séum að sigla inn í stöðugleika tímabil.“

Nálgunin ekki ólík þjóðarsáttinni

Fyrir 34 árum síðan voru gerðir kjarasamningar sem náðu niður verðbólgu og hafa allar götur síðan verið kallaðir þjóðarsáttin. Minnir nálgunin í kjaraviðræðunum núna eitthvað á nálgunina í kringum þjóðarsáttina?

„Nálgunin er ekkert ólík en við erum að vinna í allt öðruvísi umhverfi. Þegar þjóðarsáttin var þá komu Bændasamtökin sterkt að og stjórnvöld voru með ásamt verkalýðshreyfingunni. Það var stærra verkefni og menn voru þá að komast upp úr efnahagslegum óróleika. Vissulega hefur ýmislegt í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum unnið gegn okkur. Við sjáum til dæmis að ungt fólk hefur ekki efni á að kaupa húsnæði út af vöxtunum. Verðbólgan hefur rokið upp og fólk er með sömu laun en forsendur varðandi afborganir hafa breyst. Við erum að reyna að skapa umhverfi til að koma í veg fyrir þetta. Vonandi tekst það með þessum samningum en allir verða að hjálpast að,“ segir Aðalsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert