Sjö lögreglumenn í málinu: Liggja yfir myndefni

Þjófanna er enn leitað.
Þjófanna er enn leitað. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan vinnur enn að rannsókn þjófnaðarmálsins í Hamraborg í Kópavogi í síðasta mánuði þar sem tveir menn stálu tugum milljóna króna úr verðmætaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar.

Að sögn Gunnars Hilmarssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni í Kópavogi, hefur enginn verið handtekinn í tengslum við málið. Hann segir að lögreglunni hafi borist margar vísbendingar og enn sé verið að vinna úr þeim. 

„Rannsóknin er bara í fullum gangi og sjö lögreglumenn hafa meira og minna sinnt þessu máli frá því það kom upp,“ segir Gunnar við mbl.is.

Þjófarnir höfðu á brott með sér 20-30 milljónir króna sem voru í tveimur töskum í verðmætaflutningabílnum. Alls tóku þjófarnir sjö töskur úr bílnum, sem fundust á víðavangi við Esjumela og í Mosfellsbæ.

Peningarnir ekki komnir í umferð

Sérstakar litasprengjur voru í töskunum sem eiga að springa og eyðileggja verðmæti ef tilraun er gerð til að nálgast þau. Vísbendingar eru um að litasprengja hafi sprungið í að minnsta kosti einni tösku og þar með sé hluti fjármunanna ónýtur.

Gunnar segir að ljóst að einhver hluti ránsfengsins sé ataður í litum en engar upplýsingar eru um að hann sé kominn í umferð.

„Allir sem eru að taka á móti peningum hafa verið upplýstir um þetta mál,“ segir Gunnar. Hann segist ekki hafa upplýsingar um hversu stór hluti ránsfengsins hafi litast.

Þá stendur leit enn yfir að Yaris-bifreiðinni sem þjófarnir voru á þegar þeir óku á brott úr Hamraborg. Bifreiðin var með tvær mismunandi númeraplötur en báðum skráningarnúmerunum hafði verið stolið af öðrum ökutækjum.

Gunnar segir að lögreglan hafi legið yfir myndefni úr eftirlitsmyndavélum víðs vegar að og meðal annars úr Leifsstöð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert