Mæta á Alþingi í gallabuxum

Frá Alþingi í gær.
Frá Alþingi í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það hefur vakið athygli áhorfenda sjónvarpsrásar Alþingis að þingmenn eru farnir að mæta í gallabuxum í þingsal. Þetta rifjar upp atvik frá árinu 2013 þegar Elín Hirst mætti í bláum gallabuxum á þingfund en var send heim til að skipta um buxur. Sú spurning hefur vaknað hvort verið sé að slaka á reglum.

Birgir Ármannsson forseti Alþingis segir aðspurður að engar reglur hafi verið skráðar um klæðaburð þingmanna heldur sé byggt á venju og almennum viðhorfum um snyrtilegan klæðaburð. Í gegnum árin hafi línan færst nokkuð til eins og kunnugt sé. Til dæmis var sú regla afnumin árið 2009 að karlar yrðu að mæta til þings með bindi eða slaufu.

Birgir kveðst ekki hafa gert athugasemdir við þingmenn hafi þeir mætt í gallabuxum. Hann bendir í þessu sambandi á stutta lýsingu sem birtist í handbókinni Háttvirtur þingmaður, sem jafnan er afhent nýjum þingmönnum.

Alþingismenn mæta til þings haustið 2023 í sínu fínasta pússi. …
Alþingismenn mæta til þings haustið 2023 í sínu fínasta pússi. Mælst er til að þeir séu snyrtilegir til fara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snyrtilegur klæðnaður hefð

Þar segir: „Löng hefð er fyrir formlegum og snyrtilegum klæðnaði þingmanna við þingstörfin, í þingsalnum og á fundum þingnefnda. Reglan hefur verið að karlmenn séu í jakka, en meiri fjölbreytni hefur verið í klæðnaði kvenna.

Helgast þessi hefð af kröfu til hinna þjóðkjörnu fulltrúa að sýna hlutverkinu og þeirri ábyrgð sem þeim hefur verið falin virðingu og gæta að ásýnd Alþingis. Reglur um ávarpsorð í ræðustól eru hluti af þessari hefð.“

Alltaf er gert ráð fyr­ir að karl­menn klæðist jakka og …
Alltaf er gert ráð fyr­ir að karl­menn klæðist jakka og hálstaui í þing­flokki Sjálf­stæðis­flokks­ins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgir segir að á mörgum þjóðþingum landa í Evrópu, sem við lítum gjarnan til, séu óskráðar reglur um klæðaburð. Hér heima séu örugglega mismunandi venjur og hefðir í þessum efnum eftir þingflokkum. Þannig sé alltaf gert ráð fyrir að karlmenn klæðist jakka og hálstaui í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Þeir sem fylgjast með útsendingum frá þingfundum á Alþingi hafa tekið eftir því að karlkyns þingmenn hafa sumir hverjir mætt í venjulegum bol (stutterma), stundum með áletrunum. En þeir hafa gætt þess að vera í jakka utan yfir.

Hægt er að nálgast mun ítarlegri umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert