Þrjár grundvallarkröfur til næstu ríkisstjórnar

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, á blaðamannafundinum í morgun.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, á blaðamannafundinum í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Samfylkingin hefur sett fram þrjár grundvallarkröfur til næstu ríkisstjórnar, sem flokkurinn vill veita forystu, og aðgerðir til árangurs.

Fyrsta krafan, sem snýr að framförum í orkumálum, felur í sér tíu ára markmið um að auka ársframleiðslu á raforku um 5 TWh.

„Með bættri orkunýtni má fá allt að 1 TWh á sama tíma. Þannig getum við staðið undir góðum gangi í orkuskiptum á landi og hafi árið 2035, vexti til heimila og smærri fyrirtækja í takti við fólksfjölgun og hóflegri aukningu til núverandi og nýrra stórnotenda (svo sem til landeldis og gagnavera),” segir í tilkynningu en blaðamannafundur hófst klukkan 11 í morgun við félagsheimilið í Árnesi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem útspil flokksins var kynnt.

Vilja rjúfa „framkvæmdastoppið“

„Samfylkingin er staðráðin í að rjúfa framkvæmdastoppið frá 2017 sem birtist meðal annars í því að í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa framkvæmdir hafist við 0 við jarðgöng og 0 nýjar virkjanir yfir 10 MW – hvort sem litið er til virkjana sem nýta vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa,“ segir Kristrún Frostadóttir í tilkynningunni. 

Krafist er nýrrar byggðalínu fyrir árið 2035 og að útrýma skuli einföldum tengingum við þéttbýlisstaði.

mbl.is/Sigurður Bogi

Ein til tvenn jarðgöng á hverjum tíma

Hvað framfarir í samgöngumálum snertir leggur Samfylkingin fram þá kröfu að fjárfestingar í samgöngum fari aftur upp í meðaltal OECD-ríkja fyrir árið 2030 (sem er um 1% af vergri landsframleiðslu).

Lagt er til að alltaf verði framkvæmdir við ein til tvenn jarðgöng í gangi á hverjum tíma og að Strætó verði styrktur á meðan framkvæmdir standa yfir við borgarlínu.

Auðlindagjöld til nærsamfélags og þjóðar

Önnur krafa Samfylkingarinnar snýr að skynsemi í auðlindastefnu. Farið er fram á að almenn auðlindagjöld frá fyrsta kjörtímabili renni til nærsamfélags og þjóðar.

„Í fyrstu verði tekin upp skynsamleg og réttlát auðlindagjöld í sjávarútvegi, fiskeldi, orkuvinnslu og ferðaþjónustu. Auðlindastefna sem skapar ramma fyrir vöxt og verðmætasköpun um land allt,” segir í tilkynningunni.

Sjómenn að störfum.
Sjómenn að störfum. mbl.is/Sigurður Bogi

Lagt er m.a. til að veiðigjald í sjávarútvegi verði hækkað með þrepaskiptingu til að sporna við frekari samþjöppun. Auðlindagjald verði rukkað fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands og að stjórn verði komið á Airbnb.

Hart tekið á félagslegum undirboðum

Þriðja grundvallarkrafa flokksins snýst um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland.

Lagt er til að framleiðni í hagkerfinu verði aukin og að hart verði tekið á félagslegum undirboðum og hvatt til beins ráðningarsambands. Einnig að Ísland gæti hagsmuna sinna innan Evrópska efnahagssvæðisins

„Höldum sérstöðu landsins á lofti þar sem nauðsyn krefur í viðræðum innan EES. Horfa þarf til smæðar og fjarlægðar frá helstu viðskiptalöndum – styrkja verður stjórnsýsluna svo hún ráði við verkefnið,” segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert