Náði engri stjórn á sér og braut rúðu

Þrír voru teknir höndum vegna ógnandi hegðunar.
Þrír voru teknir höndum vegna ógnandi hegðunar. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá sem sýndu af sér ógnandi hegðun.

Um er að ræða þrjú aðskild mál sem komu á borð lögreglunnar á tímabili sem nær frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Lögreglu barst tilkynning um ölvaðan mann til vandræða á Austurvelli. Sá hafði verið að áreita gesti á bar í nágrenninu og sýnt af sér ógnandi hegðun. Viðkomandi var handtekinn við komu lögreglu á vettvang og fluttur á lögreglustöð þar sem málið fór í hefðbundið ferli.

Málið í rannsókn

Lögregla og sjúkralið brugðust við útkalli í heimahúsi þar sem einstaklingur kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás. Í dagbókinni segir að viðkomandi hafi brugðist ókvæða við og sýnt af sér ógnandi hegðun gagnvart lögreglu og sjúkraliði við komu viðbragðsaðila á vettvang.

Maðurinn náði engri stjórn á sér og var handtekinn eftir að hafa brotið rúðu í hamaganginum, að því er fram kemur í dagbókinni. Er málið nú í rannsókn.

Hótaði afgreiðslufólki

Þá var tilkynnt um ölvaðan mann sem hótaði afgreiðslufólki á bensínstöð. Við komu lögreglu á vettvang kannaðist maðurinn ekki við neitt og var honum því vísað á brott.

Nokkru síðar barst lögreglu önnur tilkynning um aðila með hótanir í verslun skammt frá og reyndist það vera sá hinn sami.

Viðkomandi var færður í lögreglutök og streittist hann á móti handtöku. Var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert