Telur ný gögn sanna enn frekar vanhæfi

Sigurður Gísli Björnsson og tveir aðrir karlmenn eru ákærðir fyrir …
Sigurður Gísli Björnsson og tveir aðrir karlmenn eru ákærðir fyrir stórfellt skattalagabrot sem tengist rekstri fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks-Sjávarafurða ehf. á árunum 2010 til 2017. mbl.is/Hákon

Aðalmeðferð í hinu svokallaða Sæmarksmáli hefst 28. nóvember og er áætluð í tvo daga. Verjandi Sigurðar Gísla Björnssonar sagði ný gögn renna stoðum undir frávísunarkröfu vegna meints vanhæfis rannsóknarmanns. 

Þetta kom fram í fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í morgun.

Í mál­inu eru Sig­urður Gísli og tveir aðrir karl­menn ákærðir fyr­ir stór­fellt skatta­laga­brot sem teng­ist rekstri fiskút­flutn­ings­fyr­ir­tæk­is­ins Sæ­marks-Sjáv­ar­af­urða ehf. á ár­un­um 2010 til 2017.

Áætlað er að aðalmeðferð standi yfir dagana 28.-29. nóvember.

Lagði fram ný gögn um meint vanhæfi

Frá­vís­un­ar­krafa, sem lögmaður Sig­urðar Gísla hafði lagt fram á fyrri stigum málsins, var hafnað af héraðsdómara þann 26. mars.

Byggðist sú krafa á því að Páll Jónsson rann­sókn­ar­maður hjá skatt­rann­sókn­ar­stjóra rík­is­ins hafi verið van­hæf­ur að lög­um til að rann­saka málið.

Verjandi Sigurðar lagði fram greinargerð í morgun og vakti athygli á því að hann telji ný gögn sanna enn frekar að rannsóknarmaðurinn hafi verið vanhæfur til rannsóknar málsins. 

Dómari hefur heimild til að endurskoða fyrri úrskurð ef hann telur að ný gögn réttlæti slíkt. 

Vörnin hefur sagt að Páll Jóns­son hafi starfað sem lög­lærður full­trúi eig­anda lög­fræðistof­unn­ar Nordik Legal á ár­inu 2011 til 2013. Einn eig­enda lög­manns­stof­unn­ar sé Andri Gunn­ars­son lögmaður, en Andri hafði stöðu grunaðs manns við rann­sókn skatt­rann­sókn­ar­stjóra á mál­efn­um Sæ­marks-Sjáv­ar­af­urða og Sig­urðar Gísla. Hann var ekki ákærður.

Segir vörnin enn fremur að í störf­um sín­um sem full­trúi Andra hafi Páll sinnt ýms­um lög­fræðileg­um verk­efn­um fyr­ir Sig­urð Gísla og Sæ­mark-Sjáv­ar­af­urðir og m.a. séð um alla skjala­gerð vegna stofn­un­ar sam­lags­fé­lags­ins Flutn­ings og Miðlun­ar, sem stofnað var 2011.

Ákærðir fyrir stórfellt skattalagabrot

Er Sig­urður sakaður um að hafa kom­ist hjá því að greiða tæp­lega hálf­an millj­arð í skatta eft­ir að hafa tekið tæp­lega 1,1 millj­arð út úr rekstri fé­lags­ins og komið fyr­ir í af­l­ands­fé­lög­um sem hann átti.

Einnig er hann sakaður um að hafa kom­ist hjá því að greiða yfir 100 millj­ón­ir í skatta í tengsl­um við rekst­ur Sæ­marks með því að hafa van­fram­talið tekj­ur fé­lags­ins og launa­greiðslur starfs­manna upp á sam­tals 1,1 millj­arð og þar með kom­ist hjá því að greiða 81,8 millj­ón­ir í tryggingagjald.

Sig­urður neit­ar sök í mál­inu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert