Segir vaneldaða hamborgara valda smithættu

Hamborgarar.
Hamborgarar. mbl.is/Colourbox

Sérfræðingur hjá Matís telur að upplýsa þurfi neytendur um nauðsyn þess að steikja hamborgara í gegn.

Tvær hópsýkingar urðu nýverið í Noregi sem voru raktar til hamborgarakjöts sem var ekki eldað nægilega vel.

Stundum kölluð hamborgarabakterían

Hrólfur Sigurðsson, formaður íslensku matvælarannsóknarnefndarinnar og starfsmaður Matís, segir í samtali við Bændablaðið að 24 einstaklingar hafi sýkst í öðru tilfellinu í Noregi, þar af fengu níu þeirra nýrnasjúkdóminn Hemolytic Uremic Syndrome, sem er alvarlegur og getur leitt fólk til dauða. Níu manns sýktust í hinu tilfellinu en enginn fékk umræddan sjúkdóm.

„Um er að ræða bakteríu sem stundum hefur verið kölluð „hamborgarabakterían“ (E. coli STEC) og getur verið í mörgum vörum sem við neytum. Hún finnst þó aðallega í hökkuðu nautakjöti, ógerilsneyddum mjólkurvörum og grænmeti. Hún finnst líka stundum í hveiti og því ekki ráðlagt að börn borði óbakað deig,“ segir Hrólfur við Bændablaðið.

Tæplega ellefu þúsund sýkst á síðasta ári

Hann segir að á síðasta ári hafi tæplega 11 þúsund manns sýkst af þessari bakteríu í Evrópu og nauðsynlegt sé að upplýsa neytendur, aðallega barnafjölskyldur, um hættuna af völdum hennar. Tímaspursmál sé hvenær önnur hópsýking verði hérlendis en sú fyrsta varð í Efstadal árið 2019 þegar 22 börn veiktust.

„Í Efstadal var stía með þremur kálfum og hún var þrifin með háþrýstibúnaði og svo virðist sem bakterían hafi úðast yfir nálæg borð. Þannig að smitið í Efstadal var vegna umhverfissmits sem barst í fólk sem var að borða á staðnum,“ segir Hrólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert