mbl | sjónvarp

Hefur komið að fernum markaðsverðlaunum

VIÐSKIPTI  | 20. nóvember | 10:40 
Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, hefur starfað að markaðsmálum hjá þremur fyrirtækjum sem hafa unnið til markaðsverðlauna ÍMARK meðan hún hefur verið um borð. Nýverið bættist ein skrautfjöðrin við í hattinn þegar Liv fékk sjálf verðlaun fyrir sitt starf til markaðsmála.

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, hefur starfað að markaðsmálum hjá þremur fyrirtækjum sem hafa unnið til markaðsverðlauna ÍMARK meðan hún hefur verið um borð. Nýverið bættist ein skrautfjöðrin við í hattinn þegar Liv fékk sjálf verðlaun fyrir sitt starf til markaðsmála. ÍMARK, félag íslensks markaðsfólks, tilnefndi þá Liv sem Markaðsmann ársins 2012. Hún er gestur Viðars Garðarssonar í Alkemistanum þessa vikuna. 

Liv hóf sitt fyrsta starf við markaðsmál eftir útskrift árið 1995 hjá Sláturfélagi Suðurlands og að hennar sögn var sá tími frábær skóli sem veitti henni gott uppeldi í markaðsmálum. Árið 1997 var SS valið Markaðsfyrirtæki ársins hjá ÍMARK.

Í byrjun árs 1998 tók Liv að sér starf markaðsstjóra hjá Íslenska farsímafélaginu, sem var þá fyrsta einkarekna farsímafyrirtækið á Íslandi. Tal varð til og Liv tók þátt í því að byggja fyrirtækið upp frá grunni. Tal náði góðum árangri á íslenskum farsímamarkaði og var valið Markaðsfyrirtæki ársins 1998 hjá ÍMARK.

Það var svo árið 2007 sem Nova var stofnað og hefur Liv verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá upphafi. Í niðurstöðu dómnefndar markaðsverðlaunanna er sagt að Liv hafi náð að byggja upp sterka fyrirtækjamenningu hjá Nova sem er markaðshneigð og hefur fyrirtækið sterka staðfærslu á markaði. Stefna, fyrirtækjamenning og ímynd Nova eru mjög vel samstillt og heildræn. Síðastliðin tvö ár eru viðskiptavinir Nova meðal ánægðustu viðskiptavina á fjarskiptamarkaði samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni og þá er Nova í hópi fyrirmyndarfyrirtækja VR, þar sem ánægja starfsmanna er mæld. Nova var valið Markaðsfyrirtæki ársins 2009 og aftur tilnefnt til ÍMARK-markaðsverðlauna árið 2011.

Alkemistinn
Alkemistinn er þáttur um markaðsmál og viðskipti. Viðar Garðarsson ræðir við fólk úr atvinnulífinu og fræðimenn á sviði viðskipta.
Loading