Í öðrum þætti af Dætrum Íslands heimsækjum við knattspyrnukonuna og landsliðsfyrirliðann Söru Björk Gunnarsdóttur, leikmann Lyon í Frakklandi.
Sara, sem er 31 árs gömul, hefur leikið með Lyon frá því sumarið 2020 en hún varð Frakklands- og Evrópumeistari með franska liðinu á nýliðnu keppnistímabili.
Sara hélt út í atvinnumennsku árið 2011 þegar hún gekk til liðs við Rosengård í sænsku úrvalsdeildinni en hún varð fjórum sinnum Svíþjóðarmeistari með liðinu og einu sinni bikarmeistari.
Árið 2016 gekk hún til liðs við Wolfsburg í Þýskalandi þar sem hún varð fjórum sinnum Þýskalandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari.
Hjá Lyon hefur hún tvívegis orðið Evrópumeistari, einu sinni Frakklandsmeistari og einu sinni bikarmeistari.
Sara er leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 138 A-landsleiki en hún hefur verið fyrirliði kvennalandsliðsins frá árinu 2014.
Sara eignaðist sitt fyrsta barn, Ragnar Frank Árnason, í nóvember á síðasta ári með sambýlismanni sínum Árna Vilhjálmssyni en hún snéri aftur til æfinga hjá Lyon eftir áramót.
Líkt og mbl.is greindi frá á dögunum þá mun hún yfirgefa Frakklandsmeistarana þegar samningur hennar rennur út í sumar.
Hægt er að horfa á þáttinn um Söru Björk í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.