Grillaður fiskur er eitt það besta sem hægt er að leggja sér til munns en margir veigra sér við að grilla fisk. Þegar kemur að því að velja fisk er gott að velja fisktegund sem er þétt í sér og er laxinn þar fremstur meðal jafningja ásamt lúðu og skötusel. Það má líka heilgrilla fisk en það eru ákveðin trix sem þarf að kunna til að fiskurinn heppnist sem best.
Margir telja rúllu af álpappír vera burðarstoð í fiskigrillun en það er argasti þvættingur. Hreintrúaðir ganga meira að segja svo langt að kalla það svikagrillun og það sé allt eins hægt að sjóða fiskinn enda eldist hann í eigin safa í álpappírnum. Fiskimottur eru vinsælar hjá sumum, þá sérstaklega þegar verið er að grilla viðkvæmari fisktegundir og er það gott og vel.
Tvö meginatriði ber að hafa í huga. Í fyrsta lagi þarf grillið að vera funheitt áður en fiskurinn er settur á og þannig er hann grillaður í fremur stuttan tíma. Ofeldun á fiskinum er landlægt vandamál og reyndar er það þannig með fisk að hann er fínn þótt hann sé örlítið glær í miðjunni. Hins vegar verður hann afar fljótt þurr á grilli sé hann eldaður of lengi. Hitt mikilvæga atriðið er að þrífa grillið vel áður en hafist er handa og olíubera grindina. Það er hægt að gera með því að væta tusku eða klút með matarolíu og strjúka vel yfir grindina eða einfaldlega spreyja með þar til gerðu spreyi. Hvort heldur sem er ætti að gera þetta áður en grillið verður æpandi heitt.
Hái hitinn þjónar einnig þeim tilgangi að loka fiskinum hratt og hindra þannig vökvatap líkt og gert er með kjöt. Fiskurinn festist síður við grillið og auðveldara verður að snúa honum. Í þessari uppskrift hér að neðan var laxinn skorinn í steikur en vel má grilla heilt flak. Fyrst var roðinu snúið upp til að fá fallegar grillrendur í fiskinn en síðan var honum snúið við og hann grillaður á roðinu. Fiskurinn bragðaðist ótrúlega vel og marineringin passaði einstaklega vel við og er hægt að mæla heilshugar með þessari marineringu. Fiskurinn var góður heitur og alls ekki síðri eftir að hann hafði kólnað. Ekki er verra að grilla meira en minna af fiskinum og eiga síðan í klæli til að kroppa í eða nota út í salat daginn eftir.
- 2 laxaflök
- Hvítlauks- og kóríandermarinering frá Badia
- Ferskur aspas
- SPG krydd frá Hagkaup
- Olio Nitti ólífuolía
- 1 lime
- 1 búnt ferskt kóríander
- 2-3 sítrónur
- Sérvalið sætkartöflusalat
- Sérvalin parmesansósa
- Kryddað rótargrænmeti
Aðferð:
- Skerið laxinn niður í sneiðar. Penslið vel með hvítlauks- og kóríander marineringu. Hjúpið með ferskum kóríander.
- Rífið ferskt lime yfir.
- Skerið endana af aspasinum. Hellið vel af olíu yfir og kryddið með SPG kryddinu.
- Skerið sítrónur í báta.
- Grillið laxinn, aspasinn og rótargrænmetið eins og þarf.
- Berið fram með parmesansósu og sætkartöflusalati.