Pílateskerfið styrkir miðju líkamans, djúpvöðva kviðarins, rass, læri, mjaðmir og hjálpar til við að leiðrétta líkamsstöðuna. Æfingakerfið hefur reynst góð forvörn gegn meiðslum og verður gjarnan lífsstíll fyrir þá sem byrja að stunda það. Lára Stefánsdóttir þjálfari hjá Hreyfingu sýnir hvernig á að bera sig að í Hreyfingarþætti dagsins.
Æfingarnar krefjast einbeitingar og stjórnar á hreyfingum út frá miðju líkamans. Flæði, öndun og jafnvægi eru helstu einkunnarorð pílates, sem er frábært æfingakerfi fyrir konur og karla á öllum aldri.
Þessa dagana taka mbl.is og Hreyfing höndum saman og koma með líkamsræktina heim í stofu. Alls verða tíu þættir sýndir á mbl.is þar sem farið er yfir fjölbreyttar æfingar sem hægt er að gera heima. Nýir þættir eru frumsýndir á mánudags-, miðvikudags- og föstudagsmorgnum. Þjálfarar Hreyfingar leiða áhugasama í gegnum fjölbreyttar æfingar sem eru sérstaklega samsettar til að þjálfa helstu vöðvahópa líkamans og auka vellíðan og þol.
Meðal æfinga eru styrktaræfingar, jóga, dans, hugleiðsla, teygjur, þolæfingar og pílates. Þættirnir eru í boði Hreyfingar, Hleðslu og Flóridana hér á mbl.is.