mbl | sjónvarp

Selma býr á vinnustofunni með kettinum og elskar það

SMARTLAND  | 1. júní | 16:26 
„Það er svolítið eins og ég hafi búið hérna síðan 1970,“ segir Selma.

Klæðskerinn og kjólameistarinn Selma Ragnarsdóttir er gestur Heimilislífs þessa vikuna. Selma leigir íbúð í miðbæ Reykjavíkur og hefur búið þar í um tvö ár. Hún ákvað að einfalda líf sitt eftir að hún varð einhleyp. Hún vildi íbúð sem gæti líka verið vinnustofa og rúmaði hana og köttinn. 

Hér áður fyrr var Selma með sínar eigin fatalínur sem hún seldi í verslunum en í dag er hún aðallega í því að sérsauma föt fyrir fólk og breyta fötum. Hún er alin upp við það að fara vel með og nýta allt, henda engu. Selma kaupir helst aldrei neitt nýtt og heimilið ber þess merki. Það er svolítið eins og hún hafi búið í íbúðinni síðan 1970. 

Á heimilinu er að finna gömul húsgögn sem hún hefur sankað að sér í gegnum tíðina. Þar er til dæmis gamall barnavagn en faðir Selmu keypti hann í útlöndum þegar hann sigldi um heimsins höf. 

„Það er svolítið eins og ég hafi búið hérna síðan 1970,“ segir Selma og hlær. 

Selma segist vera þakklát fyrir að hafa hnotið um íbúðina og segir að það fari mjög vel um sig. Í íbúðinni eru allir veggir grænir og líka öll loft. Þegar Selma er spurð að því hvort hún hafi málað í þessum fallega lit er svarið nei. 

„Þetta var svona þegar ég flutti inn,“ segir hún. 

 

 

 

Loading