Helga Guðný Theodórs grafískur hönnuður og barre-drottning, flutti til Íslands í kórónuveirufaraldrinum ásamt eiginmanni sínum og fjórum börnum. Hún er gestur Heimilislífs en fjölskyldan nam land í Vesturbænum. Til að byrja með leigðu þau íbúðina en festu svo kaup á henni þegar það bauðst.
Helga Guðný bjó í Kaliforníu í 13 ár þar sem hún lærði að vera barre- og jógakannari. Eftir að hún flutti heim opnaði hún NÚNA Collective sem er heilsuræktarstöð.
„Þegar við ákváðum að flytja heim í covid var Vesturbærinn það eina sem kom til greina,“ segir Helga Guðný.
„Hún er ótrúlega spes þessi íbúð. Hún er orginal.“
„Við erum „fixer upperar“, öll okkar 13 ár í Kaliforníu vorum við að leigja kytrur og hús og við gátum aldrei látið neitt vera þótt við værum að leigja. Það var alltaf verið að laga og breyta. Þetta er vel byggt hús en erum við háleitar hugmyndir hvað við viljum gera. Þetta er lítil íbúð,“ segir Helga Guðný og segir að íbúðin sé 114 fm og það sé stundum þröngt á þingi.