„Hvernig átökin byrja er engin leið að segja til um. En það sem eftir fylgir gengur fram úr öllu því sem væri að kalla sjálfsvörn. Mögulega í upphafi en það sem eftir fylgir getur ekki talist sjálfsvörn.“ Þetta segir Einar Guðberg Jónsson rannsóknarlögreglumaður um vettvang morðs í Dalshrauni.
Fjallað er um morð sem framið var í Dalshrauni í Hafnarfirði 17. ágúst 2009 í þættinum 112 hér á MBL Sjónvarpi. Einar Guðberg sem fór fyrir rannsókn morðsins segir að þó svo málið virtist nokkuð einfalt í upphafi hafi rannsóknin verið gríðarlega umfangsmikil. Atburðarásin hafi ekki legið ljós fyrir, geri það í raun ekki enn né ástæða þess að Bjarki Freyr Sigurgeirsson banaði Braga Friðjónssyni þennan dag.