„Þetta er kakan hennar Írisar vinkonu minnar en hún er snillingur í eldhúsinu. Hún slær alls staðar í gegn, er holl, einföld, fljótleg og ljúffeng svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Það er svo gaman að borða kökur sem gera manni gott, það er himnasæla og gleði,“ segir Ebba Guðný Guðmundsdóttir. Í þessum þætti kennir hún okkur að útbúa kökuna.
1 bolli möndlur eða hnetur eða bland af hnetum (ég nota oftast 1/2 bolla af möndlum og 1/2 bolla af brasilíuhnetum)
1 bolli döðlur
1 plata 70% súkkulaði
1/4 bolli pálmasykur eða óunninn hrásykur
2 msk kókosmjöl eða kókoshveiti (má nota spelt, bókhveiti o.s.frv.)
1/2 tsk vanilluduft eða 1 tsk vanilludropar
3 msk vatn
2 hamingjusöm egg
1 tsk vínsteinslyftiduft
1. Möndlur og/eða hnetur malaðar rólega í blandara í mjöl.
2. Döðlur og súkkulaði skorið niður (má setja súkkulaði í blandarann og rífa þar niður í spað) og skellt í skál ásamt möndlum/hnetum og öllu öðru í uppskriftinni, hrært aðeins saman og svo látið standa í um 15 mínútur.
3. Þá er deigið sett í venjulega stærð af kökuformi og svo er kakan bökuð í 35-40 mínútur við 150 gráður.
4. Þeyttur rjómi er settur ofan á þegar hún er orðin köld og svo má skreyta hana (ofan á rjómann) með fallegum berjum og ávöxtum.
* Lífrænn pálmasykur (kókossykur) er ljúffeng náttúruleg sæta sem er með lágan sykurstuðul (GI35) sem er helmingur af sykurstuðli venjulegs sykurs. Hann hefur þannig minni áhrif á blóðsykurinn okkar sem er jákvætt. Hann inniheldur vítamín og steinefni eins og kalíum, fosfór, magnesíum, sink og járn. Pálmasykur/kókossykur er unninn úr blómum kókostrjánna. Safanum er safnað saman og hann soðinn í karamellu sem er svo þurrkuð og þannig er búinn til pálmasykur. Pálmasykur kemur alveg í staðinn fyrir venjulegan sykur í alla matargerð. Athugið að hann er best að nota í hófi eins og alla aðra sætu.