Þegar fyrirtæki er sett á laggirnar er nauðsynlegt að byrja á að setja hugmyndina niður á blað og gera áætlanir fyrir reksturinn. Þessi vinna getur oft og tíðum verið langdregin og leiðinleg, en er jafnframt góð aðferð fyrir fyrirtæki til að fá yfirsýn yfir það hvað reksturinn er og hvað hann eigi að vera. Áætlanagerð getur jafnframt sýnt fram á ef eitthvað vantar eða ef tækifæri leynast í rekstrinum.
Í öðrum þætti af Sprotunum er farið í viðskiptaáætlanagerð, en þó ekki á þann hátt sem flestir eru vanir. Skoðuð er ný gerð af áætlunum sem hafa sótt í sig veðrið á síðustu árum og er ekki sneisafull af gröfum og texta sem sjaldan er lesinn, heldur er leitast við að finna sniðugri lausn sem jafnframt er fljótleg og nytsamleg.