Meðmælasöfnun stendur tæpt í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi hjá Lýðræðisflokknum. Þetta staðfestir Arnar Þór Jónsson, formaður flokksins í viðtali í Spursmálum.
Segir hann að í kosningaundirbúningnum hafi hann verið varaður við því að meðmælasöfnun í þessum tveimur kjördæmum gæti reynst strembin.
Fáar klukkustundir til stefnu
Þegar Arnar mætti til leiks í Spursmálum voru um 45 klukkustundir sem liðu af fresti þeim sem landskjörstjórn veitir framboðunum að skila inn fullgildum meðmælum.
210-440 meðmæli
Í Norðvesturkjördæmi þarf 210-280 meðmæli til þess að fá að bjóða fram ení Norðausturkjördæmi eru þau 300-400 talsins. Flest eru þau í Suðvesturkjördæmi eða 420-560 og í Reykjavíkurkjördæmunum hvoru um sig þarf 330-440 meðmæli. Í Suðurkjördæmi þarf 300-400 meðmæli.
Arnar Þór er gestur Spursmála að þessu sinni sem einn af leiðtogum þeirra stjórnmálaflokka sem hyggjast bjóða fram til þings þegar þjóðin gengur að kjörborðinu þann 30. nóvember næstkomandi.
Í nýjustu könnun Prósents fyrir Morgunblaðið mælist flokkurinn með rétt um 1% fylgi.
Viðtalið við Arnar Þór má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: