Þú ert á þessum langa og farsæla ferli búin að selja sex milljónir bóka, fimm milljónir hjá þér. Ég er nú bara að hugsa um umhverfisverndarsamtök, fara þau ekki að reyna að beina spjótum sínum að fólki eins og ykkur. Þetta kostar heilu skóglendin víða um heiminn.
„Mikið af þessu eru rafbækur, Stefán,“ segir Ragnar.
„Og hljóðbækur,“ bætir Yrsa við.
Rafmagnaðar bækur
En þetta sama fólk vill ekki að við séum að framleiða rafmagn til þess að knýja þær áfram. Hver er hlutdeild rafbóka orðin hér á landi orðin?
„Ekki svo mikil á Íslandi. Það er eins og að það hafi verið hlaupið yfir rafbókina hér. Fór beint í hljóðbók,“ segir Yrsa.
Og Ragnar bætir við:
„Í Bretlandi og Bandaríkjunum er þetta stór hluti. Ég veit ekki nákvæmlega hlutfallið.“
Tugir prósenta?
„Já, já og það er í raun allt Amazon. Það er allt Kindle. Þeir bara eiga það. En önnur lönd eru bara með gömlu góðu bækurnar miklu meira.“
Hljóðneyslan eykst og eykst
En svo hljóðbækurnar hér. Öll þessi hljóðneysla gegnum hlaðvörpin og í gegnum hljóðbækurnar. Finnið þið mikið fyrir því? Er fólk að fara mikið í gegnum þessa texta ykkar í gegnum eyrað?
„Já, mjög mikið. Og það sem hljóðbækurnar hafa líka gert er að gera svona gamlar bækur aðgengilegar. Þær hafa oftast bara verið á bókasöfnum eða á bókamörkuðum. Jólabók er bara ný í stuttan tíma og svo fer fólk og gleymir þeim einhvern veginn. Þær koma kannski í kilju en það sem hljóðbækurnar hafa gert er að þú getur allt í einu fundið allan baklista höfundarins. Þú lest einhverja bók, þú vilt vita hvað Yrsa hefur skrifað áður, þá ferðu bara og hlustar á það. Það er jákvætt. En grundvöllur að rithöfundar geti lifað af á Íslandi og gefið út er jólabókaflóðið. Það er sannleikurinn og ekkert mjög flókið. Þessi jólabókasala heldur þessari stétt á lífi,“ segir Ragnar.
Og hann bendir á að bókaútgáfa sem nái út fyrir landssteinana sé landkynning og góð kynning á öðrum bókmenntum frá Íslandi um leið.
Viðtalið við Ragnar og Yrsu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan: