Nói Síríus hefur í áratugi framleitt súkkulaði hér á landi sem flestir landsmenn þekkja vel. Á síðustu árum hefur aukinn ferðamannastraumur komið með nýjan markhóp sem telur um 30-40 þúsund manns á hverjum einasta degi hér á landi, aukalega við landsmenn.
Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs hjá Nóa Síríus, segir í þættinum Viðskipti með Sigurði Má, að þegar skoða átti hvað gæti höfðað til ferðamanna í tengslum við súkkulaði hafi eldfjallatengingin ekki virkað, heldur hafi hugmyndin um hefðbundið íslenskt súkkulaði virkað best.
Hann bendir á að þegar ferðamenn fari erlendis ákveði þeir oftast að kaupa þekkt alþjóðleg merki og svo vilja þeir eitthvað sem er þjóðlegt eða það sem heimamenn kaupi. Út frá þeim hugmyndum hafi Nói Síríus ákveðið að merkja nammi sem sé beint að erlendum kaupendum. Þá hafi einnig verið mikilvægt að koma þeim að á vinsælum ferðamannstöðum.
Auk þess að vera að horfa til aukinnar sölu til ferðamanna hér á landi segir Kristján að Nói Síríus selji íslenskt súkkulaði í verslunum Whole food í Bandaríkjunum og þá sé sala í Skandínavíu aðeins að taka við sér. Það sé þó langhlaup og að salan aukist rólega.